Erlent

Franskar konur beðnar um að láta fjarlægja brjóstaígræðslur

Nefnd á vegum frönsku ríkisstjórnarinnar ráðleggur nú rúmlega 30.000 konum að láta fjarlægja sílikon ígræðslur úr brjóstum sínum.



Franska fréttablaðið Liberation greindi frá því í dag að mikil hætta stafi af ígræðslunum. Nefndin komst að því að sílikon-gel í ígræðslum birgðasalans PIP hafi ekki verið samþykkt af heilbrigðisyfirvöldum í Frakklandi.



Samkvæmt niðurstöðum nefndarinnar eru töluverðar líkur á að ígræðslurnar rifni. Átta konur sem fengu ígræðslur frá PIP hafa verið greindar með krabbamein.



Talsmaður ríkisstjórnarinnar sagði að aðgerðaráætlun vegna niðurstöðu nefndarinnar væri nú í bígerð. Hann sagði að brýn nauðsyn væri á að konur með ígræðslur frá fyrirtækinu létu fjarlægja þær hið fyrsta.



Sílikon ígræðslur frá PIP eru með þeim ódýrustu sem finna má og er talið er að rúmlega 50.000 breskar konur hafi fengið ígræðslur frá fyrirtækinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×