Skoðun

Endurskoðun náttúruverndarlaga

Svandís Svavarsdóttir skrifar
Talsvert hefur verið fjallað um drög að frumvarpi til laga um endurskoðun náttúruverndarlaga. Svo virðist sem ákveðins misskilnings gæti um drögin og benda viðbrögðin til þess að sumir haldi að um endanlegt frumvarp sé að ræða sem verði lagt fram óbreytt á Alþingi. Svo er ekki. Nú er einungis verið að óska eftir athugasemdum við drög sem sérstök nefnd hefur unnið áður en frumvarpið er fullunnið í umhverfisráðuneytinu og lagt fram á Alþingi.

Í ljósi þeirra fjölmörgu þátta sem hafa þarf í huga við endurskoðun náttúruverndarlaga var ákveðið að skipta vinnu nefndarinnar upp í tvo hluta. Í fyrsta lagi var ákveðið að greina þá þætti endurskoðunarinnar sem eru hvað brýnastir og leggja fram frumvarp til laga um þær breytingar. Í öðru lagi var ákveðið að fara í heildarendurskoðun á löggjöfinni og er sú vinna enn í gangi. Þeir þættir sem talið var brýnast að bregðast við með breytingum á núgildandi lögum eru 17. gr. sem fjallar um akstur utan vega, 37. gr. um sérstaka vernd og 41. gr. um innflutning, ræktun og dreifingu lifandi lífvera. Ástæða þess að þessar tilteknu greinar voru sérstaklega teknar til skoðunar er sú að þær hafa ekki náð fram þeim markmiðum sem að var stefnt með setningu þeirra og eru ekki nægilega afgerandi þegar kemur að beitingu þeirra.

Til að tryggja að sem flest sjónarmið komi fram við tillögurnar var ákveðið að birta drög að frumvarpinu á heimasíðu umhverfisráðuneytisins og kalla eftir athugasemdum. Markmiðið með þessari aðferð er að kalla eftir víðtækum sjónarmiðum allra þeirra sem láta sig náttúruvernd varða svo að endanlegt frumvarp endurspegli eftir fremsta megni þau fjölmörgu sjónarmið sem uppi eru. Er rétt að taka fram að þetta vinnulag hefur áður verið viðhaft hjá umhverfisráðuneytinu til að tryggja sem víðtækast samráð. Ég hvet eindregið til þess að allir þeir sem áhuga og þekkingu hafa á náttúruvernd kynni sér frumvarpsdrögin og sendi inn athugasemdir við frumvarpsdrögin fyrir 21. janúar næstkomandi.

 




Skoðun

Sjá meira


×