Innlent

Krefst á annan tug milljarða

Uppbygging Kópavogsbær hefur tekið nær allt land við Vatnsenda eignarnámi undir íbúðabyggð.Fréttablaðið/Pjetur
Uppbygging Kópavogsbær hefur tekið nær allt land við Vatnsenda eignarnámi undir íbúðabyggð.Fréttablaðið/Pjetur

Þorsteinn Hjaltested, landeigandi á Vatnsenda, ætlar að stefna Kópavogsbæ vegna vanefnda á eignarnámssamningi. Þorsteinn staðfestir að sú upphæð sem hann ætli að krefja bæinn um sé nærri 14 milljörðum króna.



Þorsteinn segir að stefnan verði þingfest bráðlega, en vill ekki upplýsa nákvæmlega með hvaða hætti hann telji Kópavogsbæ hafa brotið samninginn. „Þeir hafa ekki afhent það sem um var talað,“ segir Þorsteinn.



Eignarnámssamningurinn var gerður árið 2006, eftir að samningaviðræður um sölu á landinu höfðu engu skilað. Matsnefnd eignarnámsbóta fullyrðir í úrskurði sínum frá árinu 2007 að verðmæti sáttagerðar í málinu sé á bilinu 6,5 til 8 milljarðar króna.



Bærinn fékk samkvæmt samkomulaginu 863 hektara af Vatnsendalandinu. Fyrir það átti Þorsteinn að fá ríflega tvo milljarða króna, auk þess að fá 300 lóðir undir sérbýli á 35 hekturum sem ekki voru teknir eignarnámi. Þá átti Þorsteinn að fá ríflega tíunda hluta af íbúðum og atvinnuhúsnæði sem úthluta átti á svæðinu.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×