Skoðun

Hvert örstutt spor, Gunnar Smári, hvert örstutt spor

Vilhjálmur Hjálmarsson skrifar
Á vef SÁÁ er að finna pistil eftir Gunnar Smára Egilsson frá 3. júní þar sem formaðurinn sýnir af sér fordæmalausan þekkingarskort og fellir sleggjudóma um grafalvarlegt málefni.

Sem einstaklingur með athyglisbrest leyfi ég mér að fullyrða:

*Einstaklingar með athyglisbrest sem fá meðferð byggða á rítalíni eru ekki líklegir til að þróa með sér ávana eða fíkn.

*Einstaklingar sem ekki hljóta viðeigandi meðferð eru líklegri til að misnota áfengi og fíkniefni.

* Með því að ráðast að óathuguðu máli gegn meðferð á athyglisbresti er Gunnar Smári að auka þörf á þjónustu SÁÁ.

Mér blöskrar þær tölur sem sést hafa varðandi lyfjakostnað. Þar erum við alveg sammála, Gunnar Smári og ég. En ég fordæmi hiklaust upphlaup formanns SÁÁ sem vanhugsað áróðursbragð. Gunnar Smári er ekki nýliði í fjölmiðlaumfjöllun og væri maður að meiru ef hann viðurkenndi mistök sín. Að öðrum kosti dæmir hann sjálfan sig óhæfan til að leiða SÁÁ.

Er ekki kominn tími til að staldra við og íhuga eftirfarandi:

*Ef rannsókna er þörf varðandi greiningu og meðferð á athyglisbresti þarf ekki einfaldlega að styðja við slíkt starf?

*Ef Ísland stendur svona langt upp úr er þá ekki þörf á að greina hvers vegna?

* Ef aðgengi fíkla að „læknadópi" er svona mikið sem raun ber vitni þarf þá ekki að skoða hvers vegna og hvernig hægt sé að koma í veg fyrir það?

Ég skora á íslensk stjórnvöld, Gunnar Smára og aðra landsmenn að taka á þessu máli með festu og stillingu. Fordómafullir sleggjudómar bjarga ekki mannslífum. En hvert örstutt spor – Gunnar Smári – hvert örstutt spor í rétta átt er áfangi sem vert er að vinna að. Það ættir þú að vita svo mætavel sjálfur.




Skoðun

Sjá meira


×