Skoðun

Reikningsskapur

Líf Magneudóttir skrifar
Þegar þriggja ára áætlun Reykjavíkurborgar birtist loks eftir dúk og disk lét oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík hafa eftir sér að hann skildi ekki upphlaup minnihlutans og þætti það reyndar vandræðalegt. Áður en Dagur Eggertsson og Jón Gnarr tóku höndum saman hefðu áætlanir aðeins verið framreikningar og því líklega ekki merkilegir pappírar. Þeir kumpánar kynnu hins vegar til verka og myndu ekki afgreiða neinar áætlanir nema allt væri komið upp á borðið varðandi kostnað.

Það er því athyglisvert að skoða þessa þriggja ára áætlun með hliðsjón af ummælum Dags, en hún er aðgengileg á heimasíðu Reykjavíkurborgar. Þar má sjá að gert er ráð fyrir nákvæmlega sömu skatttekjum öll þrjú árin sem spáin nær til. Og það er kannski ekki skrýtið því áætlun þeirra Dags og Jóns gerir ráð fyrir óbreyttum launakostnaði næstu þrjú árin (sem sagt – sama kostnaði og í ár). Það er óþarfi að rekja tölurnar í smáatriðum en sömu sögu er að segja um áætlun vegna samstæðunnar, A- og B-hluta borgarsjóðs. Þetta er auðvitað ekki hægt að kalla framreikninga, þar sem ekkert er reiknað, og getur því áætlanagerð af þessu tagi varla fengið háa einkunn.

Í inngangi hennar má kannski finna skýringu á þessu en þar segir að ekki sé tekið tillit til nýgerðra kjarasamninga við starfsmenn borgarinnar; að ekki sé tekið tillit til vísbendinga um óhagstæðara verðlag gengisþróunar (en gert var ráð fyrir í endurskoðaðri fjárhagsáætlun 2011), að ekki sé gert ráð fyrir ábendingum fagsviða um mögulega kostnaðarauka á næstu árum og að ekki sé gert ráð fyrir aukningu útsvarstekna og fasteignagjalda umfram það sem núgildandi álagningarhlutföll og álagningarstofnar leiða af sér.

Þrátt fyrir að ekki sé gert ráð fyrir neinu sem liggur fyrir að muni gerast á næstu þremur árum, telur Dagur Eggertsson, og væntanlega Jón Gnarr líka, að nauðsynlegt sé að bíða eftir tölum um kostnað vegna flutnings málefna fatlaðra frá ríkinu. Það er mikilvægur málaflokkur og ég skil að honum vilji menn sinna vel. En er ekki frekar lélegt að nota flutning málaflokks fatlaðra frá ríki til sveitarfélags sem afsökun fyrir því að meirihlutinn í Reykjavík geti ekki komið saman þriggja ára áætlun?




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×