Skoðun

Eistneski kúrinn

Össur Skarphéðinsson skrifar
Eistar telja að aðildin að ESB árið 2004 hafi skipt sköpum um hve vel gengur í landinu. Þrátt fyrir óróann á alþjóðlegum fjármálamörkuðum héldu þeir ótrauðir sínu striki og tóku upp evruna um síðustu áramót. Hagvöxtur í kjölfar aðildar, og síðan evrunnar, er með því besta sem þekkist í Evrópu.

„Breytingarnar í Eistlandi á síðustu 20 árum eru nánast kraftaverk“ sagði Carl Bildt, hinn annars orðvari utanríkisráðherra Svíþjóðar, í pallborðsumræðum sem við tókum þátt í fyrir skemmstu í Tallinn. Niðurstaða Eistanna sjálfra var að Evrópusambandið hefði ráðið úrslitum um efnahagslega endurreisn landsins.

Eftir upptöku evrunnar nam hagvöxtur 8% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Útflutningur jókst í maí um 53% milli ára (maí til maí) og atvinnuleysi er á niðurleið eftir dýfuna 2008. Erlendar fjárfestingar hafa streymt inn í landið og nema nú 80% af landsframleiðslu. Skuldir Eistlands eru þær lægstu í Evrópu og eru aðeins 6% af VLF.

Ungt fólk sem áður sá framtíð sína utan Eistlands festir nú rætur heima fyrir. Skapandi greinar og listir eru á fleygiferð samhliða iðnaði og öðrum hefðbundnum atvinnugreinum. Alþjóðleg stórfyrirtæki á borð við Skype hafa flutt höfuðstöðvar sínar til Tallinn – og þau eru ekki á förum. Eistlandi hefur tekist að byggja upp þróttmikið, fjölbreytt og nútímalegt atvinnulíf. Eistar eru stoltir af sínu þjóðerni og þeir eru stoltir af því að tilheyra Evrópu.

Af hverju er ég að segja frá þessu? Jú, Eistland er lítil þjóð eins og við Íslendingar. Þeir, eins og svo margir aðrir, lentu vissulega í efnahagshremmingum árið 2008. En eistneska leiðin – aðild að ESB og upptaka evrunnar ásamt sterkri áherslu þeirra í samvinnu við Evrópusambandið á nýsköpun, fjárfestingar og fjölbreytt atvinnulíf sýnir að það er hægt að ná miklum árangri með réttri stefnu. Þetta er eistneski kúrinn.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×