Darrin Govens, leikmaður úr Þór Þorlákshöfn og Helgi Jónas Guðfinsson, þjálfari Grindavíkur voru valdir bestir í fyrri umferð Iceland Express deild karla í körfubolta en KKÍ verðlaunaði fyrir fyrstu ellefu umferðirnar í dag.
Það vekur athygli að topplið Grindavíkur á engan leikmann í úrvalsliðinu en Grindvíkingar hafa fjögurra stiga forskot á næsta lið í töflunni eftir fyrstu 11 leikina. Helgi Jónas hefur hinsvegar gert frábæra hluti með liðið í vetur.
Darrin Govens var með 25,0 stig og 4,3 stoðsendingar að meðaltali í fyrri umferðinni og hjálpaði nýliðum Þórs til að vinna 7 af 11 leikjum sínum og sitja í 4. sætinu þegar mótið er hálfnað.
Með Govens í úrvalsliðinu eru Magnús Þór Gunnarsson úr Keflavík, Árni Ragnarsson úr Fjölni, Marvin Valdimarsson úr Stjörnunni og Finnur Atli Magnússon úr KR.
Nathan Walkup úr Fjölni var valinn dugnaðarforkurinn og Sigmundur Már Herbertsson var kosinn besti dómarinn.
Körfubolti