Íslands- og bikarmeistarar KR tryggðu sér sæti í átta liða úrslitum Poweradebikars karla í gær með því að vinna 81-76 sigur á Grindavík í stórskemmtilegum og spennandi leik í DHL-höllinni. KR-ingar enduðu þar með fjögurra ára bið eftir því að bikarmeistarar ársins á undan kæmust í gegn tvær fyrstu umferðir bikarsins.
Bikarmeistarar þriggja síðustu ára á undan höfðu allir dottið út í 16 eða 32 liða úrslitunum og ÍR-liðið frá 2008 var síðasta bikarmeistaraliðið sem komst í átta liða úrslitin. Keflvíkingar eru aftur á móti síðasta liðið til þess að verja bikarmeistaratitilinn en það gerðu þeir veturinn 2003 til 2004.
KR-ingar unnu bikarinn í fyrsta sinn í tuttugu ár síðasta vetur en þeir hafa ekki unnið bikarmeistaratitilinn tvö ár í röð síðan að þeir gerðu það 1974. KR-ingar unnu bikarinn einnig 1979 og 1984. 1979-80 duttu þeir út í undanúrslitum og 1984-85 töpuðu þeir í bikarúrslitaleiknum. KR fór síðan alla leið í undanúrslit þegar þeir reyndu að verja bikarinn síðast 1991-92.
KR-ingar hafa nú unnið tvo bikarleiki á þessu tímabili eða einum bikarleik meira en bikarmeistarar þriggja síðustu ára á undan náðu samanlagt í sinni bikarmeistaratitilvörn. Snæfell 2009 og Stjarnan 2010 duttu út úr 32 liða úrslitunum og Snæfell datt út í 16 liða úrslitunum í fyrra. Öll þessi þrjú lið duttu út eftir tap á heimavelli.
Gengi bikarmeistara síðustu ára:
2012 KR - komnir í 8 liða úrslit
2011 Snæfell - 16 liða úrslit (96-98 tap fyrir Njarðvík)
2010 Stjarnan - 32 liða úrslit (76-97 tap fyrir Keflavík)
2009 Snæfell - 32 liða úrslit (73-79 tap fyrir KR)
2008 ÍR - 8 liða úrslit (80-83 tap fyrir Skallagrími)
2007 Grindavík - Undanúrslit (91-95 tap fyrir ÍR)
2006 Njarðvík - Undanúrslit (85-89 tap fyrir Keflavík)
2005 Keflavík - 8 liða úrslit (85-88 tap fyrir Njarðvík)
2004 Keflavík - Bikarmeistari
Körfubolti