Fótbolti

Hælspyrna felldi Manchester City í Lissabon

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Brasilíski miðvörðurinn Xandao skoraði eina mark leiksins með óvæntri hælspyrnu þegar Sporting Lissabon vann Manchester City 1-0 í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar í Portúgal í kvöld.

City-menn söknuðu Yaya Toure í þessum leik en miðjumaðurinn öflugi var í leikbanni í þessum leik. Ekki batnaði ástandið þegar Vincent Kompany, fyrirliði Manchester City, haltraði af velli eftir átta mínútna leik og virtist hafa tognað á kálfa. Ekki góðar fréttir fyrir City að missa belgíska miðvörðinn í meiðsli á þessum tíma.

Kolo Toro (skalli eftir horn) og Gareth Barry (skot af vítateigslínu eftir horn) komustu næst því að skora í rólegum fyrri hálfleik en það var ljóst að City-liðið ætlaði ekki að taka neina áhættu í þessum leik.

Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn mun betur og brasilíski miðvörðurinn Xandao kom Sporting í 1-0 á 51. mínútu. Joe Hart hafði þá bæði varið aukaspyrnu Matías Fernández sem og skot frá Xandao. Xandao náði aftur frákastinu af sínu skoti og skaut boltann með hælnum og í markið.

Joe Hart bjargaði sínum mönnum á 63. mínútu þegar hann varði vel frá Hollendingnum Ricky van Wolfswinkel í algjöru dauðafæri í teignum.

Manchester City pressaði meira undir lokin og næst komst Mario Balotelli að skora þegar hann skallaði í slánna. Heimamenn héldu hinsvegar út og fögnuðu góðum sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×