„Afskipti mín af því hvort Icesave ætti að vera í dótturfélagi í Bretlandi eða hefðu engu breytt, og hefðu verið úr takti við málið," sagði Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir Landsdómi í dag.
Á þriðja tímanum í dag hóf Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari að spyrja hann út í þann ákærulið sem snýr að því að hann hafi ekki fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag.
Geir segir að ríkið beri enga ábyrgð á Tryggingasjóði innistæðueigenda. Í samskiptum við bresk stjórnvöld hefðu íslensk stjórnvöld sagt að þeir stæðu við það sem tilskipanir segðu til um. Ekkert meira en það og tjónið átti ekki að lenda á skattgreiðendum.
Geir sagði hugsanlegt að breska fjármálaeftirlitið hafi ekki viljað flutning á Icesave í dótturfélag, þar sem skuldbindingin hefði færst til Breta. Þetta skýrði hugsanlega hvers vegna fjármálaeftirlitið gerði sífellt ríkari kröfur til Landsbankans á árinu 2008.
