Fótbolti

Manchester City skoraði þrjú mörk í seinni en féll samt úr leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Manchester City getur farið að einbeita sér að baráttunni um Englandsmeistaratitilinn eins og nágrannar þeirra í Manchester United þrátt fyrir 3-2 sigur á heimavelli á móti portúgalska liðinu Sporting Lissabon í seinni leik liðanna í 16 liða úrslitum Evrópudeildarinnar en Sporting Lissabon vann fyrri leikinn 1-0 og fór áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.

Sporting Lissabon liðið gerði nánast út um þetta með því að skora tvö mörk í fyrri hálfleiknum. Það fyrra skoraði Matías Fernández beint úr aukaspyrnu á 33. mínútu og það síðara gerði Ricky van Wolfswinkel af stuttu færi á 40. mínútu eftir fyrirgjöf frá Marat Izmailov.

Sergio Agüero kveikti lífsvon hjá City með því að minnka muninn í 2-1 á 60. mínútu með flottri afgreiðslu eftir sendingu inn í teigin frá Yaya Toure. Agüero fiskaði síðan umdeilda vítaspyrnu og úr henni jafnaði Mario Balotelli.

Agüero var ekki hættur því hann kom City í 3-2 á 82. mínútu og þar með vantaði City aðeins eitt mark. Leikmenn Manchester City voru í stórsókn á lokakafla leiksins en náðu ekki að skora eitt mark í viðbót. Minnstu munaði að markvörðurinn Joe Hart yrði hetjan en skalli hans í lok uppbótartímans fór rétt framhjá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×