Fótbolti

AZ vann fyrri leikinn á móti Valencia - Jóhann Berg spilaði allan leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhann Berg.
Jóhann Berg. Mynd/AP
Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í hollenska liðinu

Az Alkmaar unnu 2-1 heimasigur á spænska liðinu Valencia í kvöld í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Brett Holman og Maarten Martens skoruðu mörk AZ í leiknum og áttu einnig stoðsendingarnar á hvorn annan. Þrátt fyrir sigurinn verður róðurinn erfiður í seinni leiknum á Mestalla í Valencia.

Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði AZ og átti tvær ágætar tilraunir í fyrri hálfleiknum, langskot yfir og svo skot í varnarmann eftir að hafa leikið skemmtilega á varnarmann Valencia. Jóhann Berg lék allan leikinn og stóð sig vel.

Brett Holman kom AZ í 1-0 í uppbótartíma fyrri hálfleiks með frábæru viðstöðulausu skoti úr teignum eftir hornspyrnu frá Maarten Martens.

Það tók Valencia-liðið aðeins sex mínútur að jafna í seinni hálfleik þegar Mehmet Topal skoraði með skalla úr teignum eftir fyrirgjöf frá Ricardo Costa.

Maarten Martens kom AZ aftur yfir á 79. mínútu þegar hann skoraði með skoti úr teignum eftir frábæra sókn og sendingu frá Brett Holman. Þetta reyndist vera sigurmarki AZ í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×