Fótbolti

Falcao getur tryggt sér sögulega tvennu í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Radamel Falcao.
Radamel Falcao. Mynd/Nordic Photos/Getty
Kólumbíumaðurinn Radamel Falcao getur skrifað nafn sitt í sögubækurnar í kvöld takist honum að vinna Evrópudeildina með félögum sínum í Atletico Madrid. Spænsku liðin Atletico Madrid og Athletic Bilbao mætast þá í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í Búkarest en leikurinn verður sýndir beint á Stöð 2 Sport og hefst klukkan 18.45.

Falcao á möguleika á því að vinna Evrópudeildina annað árið í röð en í fyrra skoraði hann eina markið í úrslitaleiknum þegar Porto vann Braga 1-0 í Dublin. Það var 17. markið hans í keppninni en í ár hefur hann skorað tíu mörk og er líkt og þá markahæsti leikmaður Evrópudeildarinnar.

Með sigri í kvöld verður Falcao fyrsti leikmaðurinn í sögu Evrópudeildarinnar til að vinna titilinn tvö ár í röð með mismundandi félögum og á sama tíma verða markahæsti leikmaðurinn bæði árin.

Radamel Falcao hefur skorað 10 mörk í 14 leikjum í Evrópudeildinni á þessu tímabili, þar af 4 með skalla og 1 úr víti. Hann skoraði 17 mörk í 14 leikjum í keppninni í fyrra, sjö þeirra komu með skalla og tvö af vítapunktinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×