Viðskipti innlent

Telur rann­sóknina ekki í upp­námi

Magnús Halldórsson. skrifar

Saksóknari hjá embætti sérstaks saksóknara segist ekki líta svo á að rannsóknin á Vafningsmálinu sé í uppnámi þrátt fyrir að rannsakendur málsins hafi verið kærðir fyrir brot á lögum um þagnarskyldu. Lögmaður ákærða segir drátt málsins bagalegan.

Málflutningur átti að fara fram í morgun í þeim hluta Vafningsmálsins sem tengist frávísunarkröfu ákærðu í málinu, þeirra Lárusar Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, og Guðmundar Hjaltason, fyrrverandi starfsmanns bankans. Hólmsteinn Gauti Sigurðsson, saksóknari, lagði fram greinargerð við upphaf fyrirtöku málsins, þar sem fjallað er um innanhúsrannsókn embættisins á því að hvort vinna rannsakenda í málinu, sem nú hafa verið kærðir til ríkissaksóknara, hefði grafið undan rannsókn málsins eða ekki. Héraðsdómur hafnaði kröfu verjana ákærðu í málinu, Þórðar Bogasonar og Óttars Pálssonar, um að greinargerðin yrði ekki tekin til greina.

„Ég tel það mjög líklegt að við munum láta reyna á það fyrir Hæstarétti. Og ég tel að hann hafi mátt vita það að það er þegar búið að mótmæla þessari nálgun hans og þessari innanhússrannsókn. Þess vegna hafi hann valdið töfum á málinu og mér finnst það miður," segir Þórður.

Frávísunarkrafan byggir á því að rannsakendur málsins, Jón Óttar Ólafsson og Guðmundur Haukur Gunnarsson, hafi verið vanhæfir til þess að rannsaka málið þar sem þeir voru að störfum fyrir þrotabú Milestone, meðal annars í tengslum við sömu mál og þeir voru að rannsaka, samhliða störfum fyrir sérstakan saksóknara.

Hólmsteinn Gauti segir að málið nú fá sinn framgang í kerfinu og saksóknari þurfi að taka á þeim málum sem upp koma á hverjum tíma við meðferð mála.

„Ég vil nú ekki komast þannig að orði að þetta sé eitthvað óþægilegt fyrir saksóknara. Þetta er náttúrlega bara mál sem er rekið fyrir dómi, sakamál, bara vinna. Maður verður bara að fást við þær hindranir sem verða á veginum, hvort sem þær eru réttarfarslegar eða eru af öðrum meiði," sagði Hólmsteinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×