Fótbolti

Frábær úrslit hjá FH-ingum gegn AIK

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd / Ernir
FH-ingar gerðu sér lítið fyrir og gerðu 1-1 jafntefli gegn AIK í fyrri viðureign félaganna í 2. umferð Evrópudeildarinnar í knattspyrnu en leikið var í Solna í Svíþjóð.

Svíarnir voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og sköpuðu sér nokkur ágætis færi. Gunnleifur Gunnleifsson stóð hins vegar vaktina vel í marki FH.

Á 40. mínútu fékk Atli Guðnason boltann utan vítateigs hægra megin. Kantmaðurinn lék inn á teiginn og lét vaða. Boltinn hrökk af leikmanni AIK og efst í nærhornið hjá markverði AIK. Hafnfirðingar komnir yfir og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Forsty FH-inga varði í tíu mínútur í síðari hálfleik en þá skoraði Viktor Lundberg með fallegum skalla úr vítateig eftir fyrirgjöf frá vinstri.

AIK fékk eitt færi til að tala um það sem eftir lifði leiks og lokatölurnar 1-1.

Gunnleifur Gunnleifsson átti fínan leik í marki Hafnfirðinga. Þá áttu Bjarki Gunnlaugsson og Hólmar Örn Rúnarsson úrvalsleik á miðjunni líkt og Atli Guðnason á kantinum.

Frábær úrslit hjá FH sem á góða möguleika á sæti í 3. umferð keppninnar en síðari leikur liðanna fer fram í Kaplakrika á fimmtudaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×