Serbinn Novak Djokovic fór illa með Bandaríkjamanninn Andy Roddick í tenniskeppni Ólympíuleikanna í gær og er líklegur til að berjast um gullið á leikunum. Djokovic segir allt annað andrúmsloft í tenniskeppni Ólympíuleikanna en á öðrum mótum.
„Þú ert ekki bara að spila fyrir sjálfan þig eins og vanalega," sagði hinn 25 ára gamli Novak Djokovic sem vann brons í Peking fyrir fjórum árum.
„Þetta er einstakur viðburður og einstakt tækifæri til að keppa fyrir hönd þjóðar þinnar. Landar þínir hvetja þig áfram sem fulltrúa þinnar þjóðar á Ólympíuleikunum," sagði Djokovic en hann er í 2. sæti á Heimslistanum á eftir Roger Federer.
„Uppgjöfin hefur gengið sérstaklega vel hjá mér í tveimur fyrstu leikjunum og allt gekk upp á móti Roddick," sagði Djokovic.

