Viðskipti innlent

Telur Helga Magnús van­hæfan til þess að fara með málið

Gunnar Andersen.
Gunnar Andersen.

Gunnar Andersen, fyrrverandi forstjóri FME, krefst þess að ákæru ríkissaksóknara á hendur honum verði vísað frá, þar sem Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, hafi verið meðal þeirra sem sóttu um stöðu forstjóra FME sem auglýst var laus til umsóknar 11. febrúar 2009.

Gunnar var einnig meðal umsækjanda, sem voru nítján talsins, en hann var að loknu hæfismati ráðinn forstjóri FME.



Guðjón Ólafur Jónsson hrl., lögmaður Gunnars, sagði í munnlegum málflutningi í Héraðsdómi Reykjavíkur, sem nú stendur yfir, að Gunnar hefði haft betur í persónulegri samkeppni um stöðu forstjóra FME, við Helga Magnús, og því sé hann vanhæfur til þess að reka málið fyrir dómstólum.



Guðjón Ólafur sagði enn fremur, við upphafi ræðu sinnar, að ákæran væri „óttalegur bastarður" þar sem hún væri óskýr og illa framsett.



Gunnar og fyrrverandi starfsmaður Landsbankans eru ákærðir fyrir að hafa staðið að því að leka gögnum úr fjármálakerfinu, um fjárhag Guðlaugs Þórs Þórðarsonar þingmanns, til DV. Er Gunnar talinn hafa brotið gegn lögum um þagnarskyldu auk  þess að hafa brotið gegn lögum um opinbera starfsmenn.



Þeir neituðu báðir sök við þingfestingu málsins.



Munnlegi málflutningurinn sem nú stendur yfir, snýr eingöngu að frávísunarkröfu Gunnars, sem hann stendur einn að. Lögmaður fyrrverandi starfsmann Landsbankans tók undir kröfuna, þegar Guðjón Ólafur gerði grein fyrir henni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×