Fótbolti

Tveir stuðningsmenn Roma í fimm ára bann

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
Tveir stuðningsmenn Roma, 25 ára og 26 ára, hafa verið bannaðir frá knattspyrnuleikjum á Ítalíu næstu fimm árin vegna aðildar að árás á stuðningsmenn Tottenham á öldurhúsi í Rómarborg á fimmtudaginn.

Liðin leiddu saman hesta sína í Rómarborg umrætt kvöld en leiknum lauk með markalausu jafntefli.

Lögregluyfirvöld í Róm staðfesta að umræddir karlmenn, sem eru í gæsluvarðhaldi, hafi fengið þau skilaboð að þeir séu bannaðir frá íþróttaviðburðum á Ítalíu í fimm ár.

Í yfirlýsingu frá lögregluyfirvöldum segir að hópur grímuklæddra stuðningsmanna Roma hafi ráðist að enskum stuðningsmönnum á öldurshúsi í Rómarborg. Sumir Englendinganna slösuðust í árásinni þar af einn alvarlega.

Stuðningsmennirnir eru enn í gæsluvarðhaldi. Í fyrstu voru þeir kærðir fyrir manndrápstilraun. Á mánudag ákvað hins vegar saksóknari í Róm að tvímenningarir yrðu kærðir fyrir alvarlega líkamsárás.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×