Lífið

Enskur texti saminn við Mundu eftir mér

Greta Salóme segir nauðsynlegt að hafa í huga að enskur texti höfði til fleiri kjósenda.
Greta Salóme segir nauðsynlegt að hafa í huga að enskur texti höfði til fleiri kjósenda.
„Enski textinn er til en hann er ekki endanlegur," segir Greta Salóme Stefánsdóttir höfundur og annar flytjandi framlags Íslendinga til Eurovision söngvakeppninnar í Baku í lok maí.

Ekki hefur verið ákveðið hvort lagið Mundu eftir mér verði flutt með íslenskum eða enskum texta í Eurovision ytra. Greta segir það velta á því hvernig textinn hljómar og hvort þau verði ánægð með hann. Hún segir mikilvægt að hugsa hlutina í stóru samhengi þegar horft er á keppnina úti þar sem langflestir sem koma til með að kjósa séu að heyra lögin í fyrsta skipti.

„Enskan höfðar til fleiri og við verðum að taka það með í reikninginn, Margir útlendingar virðast samt heillast af þessum álfablæ sem fylgir íslenska textanum," segir Greta. Greta segist hafa skoðað það að hafa blandaðan texta með íslensku og ensku og ætlar ekki að útiloka að það verði gert. „Ég er samt svona allt eða ekkert manneskja og mér finnst frekar þurfa að vera góður íslenskur texti eða góður enskur texti," segir hún og tekur skýrt fram að þó sungið yrði á ensku úti þá komi íslenska útgáfan til með að lifa áfram.

Sami hópur flytur lagið á sviðinu í Baku og flutti það í Hörpu á dögunum og nú styttist í að Greta og félagar þurfi að skila því af sér út.

„Við höfum þar til um miðjan mars til að skila af okkur öllu sem tengist laginu," segir Greta og bætir við að undirbúningur standi nú yfir fyrir upptöku á myndbandi við lagið.

- trs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.