„Hann er ótrúlega góður og hljómar alveg eins og þeir," segir Kristján I. Gunnarsson sem stjórnar nýjum útvarpsþætti, Félagarnir, á FM 957 ásamt Ásgrími Guðnasyni.
Darren Farley, sem hermir eftir leikmönnum og þjálfurum úr enska boltanum, er fastur gestur í þættinum, sem er á dagskrá á laugardögum. Farley setti myndband á Youtube sem hátt í þrjár milljónir hafa séð þar sem hann hermir eftir Rafa Benitez, fyrrum stjóra Liverpool, og fótboltaköppunum Steven Gerrard, Jamie Carragher, Michael Owen og Peter Crouch.
Farley hefur verið gestur í flestum af vinsælustu fótboltaþáttum Bretlands eins og Soccer AM, Match of the day á BBC og á ITV og er núna í vinnu hjá Liverpool með sitt uppistand. „Hann er frá Liverpool þessi strákur og tekur svolítið Liverpool-tengt efni en hann hefur samt tekið Rooney og Beckham líka," segir Kristján, sem komst í samband við hann í gegnum Facebook. „Þessi þáttur er öðruvísi en hinn hefðbundni FM-hlustandi á að venjast. Við viljum prófa að hafa meiri fjölbreytni á stöðinni," bætir hann við um Félagana. -fb
