Þingið endurspegli þjóðina Þórunn Elísabet Bogadóttir skrifar 9. júlí 2012 06:00 Þess var minnst um helgina að níutíu ár eru liðin frá því að kona tók í fyrsta skipti sæti á Alþingi. Það er sem sagt ekki lengra en ein mannsævi síðan Ingibjörg H. Bjarnason settist á þing og braut blað í sögunni. Ingibjörgu var ekki sérstaklega vel tekið á þingi árið 1922, enda þótti mörgum á þeim tíma fráleitt að kona tæki þar sæti. Ingibjörg fékk athugasemdir um útlit sitt, aldur og þá staðreynd að hún var ógift og barnlaus. Henni leið ekki vel á þingi og hætti að lokum. Skömmu síðar skrifaði hún grein í Lögréttu þar sem hún sagði fyrstu konurnar, brautryðjendurna, auðvitað verða fyrir hnjaski aðeins vegna þess að þær væru konur. Slíkt mætti þó ekki setja fyrir sig. Konur voru mjög lengi lítill hluti af þingmönnum og þær náðu ekki upp fyrir fimm prósent þingmanna fyrr en Kvennalistinn seinni bauð fram í kosningum árið 1983. Fram að því höfðu mest þrjár konur setið á sama tíma á þingi. Með tilkomu Kvennalistans neyddust aðrir flokkar til þess að bjóða fram með konur á sínum listum, og konur urðu fimmtán prósent þingmanna frá 1983. Hlutfallið hefur hækkað jafnt og þétt upp frá því. Það var þó ekki fyrr en í kosningunum 1999 sem konur urðu meira en þriðjungur þingmanna. Upp fyrir fjörutíu prósentin varð ekki komist fyrr en í síðustu kosningum og enn eigum við eftir að sjá þing koma saman þar sem kynjahlutföll eru jöfn. Samt sem áður hefur Ísland náð einna mestum árangri í jafnréttismálum. Það er eðlileg krafa að þjóðþing endurspegli þjóðina. Þess vegna er bæði eðlilegt og sjálfsagt að konur og karlar séu nokkurn veginn í jöfnum hlutföllum á þingi. Rannsóknir benda til þess að það skipti mjög miklu máli að konur hafi áhrif í stjórnmálum. Þær leggja oft áherslu á önnur mál en karlar. Konur á þingi hafa til dæmis alla tíð beitt sér fyrir málum sem skipta konur máli, eins og réttindi kvenna og barna. Árið 1922 þótti konum til að mynda vanta talsmann velferðarmála inn á þing og í ávarpi kosninganefndar kvenna var minnt á að konur sæju heiminn öðrum augum en karlar. Stjórnmálaflokkar eru flestir meðvitaðir um mikilvægi þess að hafa fulltrúa beggja kynja í sínum röðum og því þarf líklega ekki að hafa miklar áhyggjur af því að konum fari fækkandi á ný. En þar með er björninn ekki unninn að fullu. Stjórnmálin eru enn talsvert karllæg. Helga Guðrún Jónasdóttir formaður Kvenréttindafélags Íslands orðaði það sem svo í sínu erindi í gær að baráttan snúist ekki lengur um aðgang kvenna að stjórnkerfinu og rétt á völdum, heldur um það að beiting valds af hálfu kvenna öðlist viðurkenndan sess – að konur séu jafnvel til þess fallnar að stjórna og karlar. Það er holl og þörf áminning að rýna í söguna og rifja upp hversu margt hefur breyst til batnaðar á ekki lengri tíma en einni mannsævi. En tímamót eins og þau sem minnst var um helgina eru líka áminning um allt sem enn á eftir að breyta. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þórunn Elísabet Bogadóttir Mest lesið Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Hefur sala á rafbílum hrunið? Jón Ásgeir Haukdal Þorvaldsson Skoðun Ég get horft í augun á ykkur og sagt Kristófer Már Maronsson Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun
Þess var minnst um helgina að níutíu ár eru liðin frá því að kona tók í fyrsta skipti sæti á Alþingi. Það er sem sagt ekki lengra en ein mannsævi síðan Ingibjörg H. Bjarnason settist á þing og braut blað í sögunni. Ingibjörgu var ekki sérstaklega vel tekið á þingi árið 1922, enda þótti mörgum á þeim tíma fráleitt að kona tæki þar sæti. Ingibjörg fékk athugasemdir um útlit sitt, aldur og þá staðreynd að hún var ógift og barnlaus. Henni leið ekki vel á þingi og hætti að lokum. Skömmu síðar skrifaði hún grein í Lögréttu þar sem hún sagði fyrstu konurnar, brautryðjendurna, auðvitað verða fyrir hnjaski aðeins vegna þess að þær væru konur. Slíkt mætti þó ekki setja fyrir sig. Konur voru mjög lengi lítill hluti af þingmönnum og þær náðu ekki upp fyrir fimm prósent þingmanna fyrr en Kvennalistinn seinni bauð fram í kosningum árið 1983. Fram að því höfðu mest þrjár konur setið á sama tíma á þingi. Með tilkomu Kvennalistans neyddust aðrir flokkar til þess að bjóða fram með konur á sínum listum, og konur urðu fimmtán prósent þingmanna frá 1983. Hlutfallið hefur hækkað jafnt og þétt upp frá því. Það var þó ekki fyrr en í kosningunum 1999 sem konur urðu meira en þriðjungur þingmanna. Upp fyrir fjörutíu prósentin varð ekki komist fyrr en í síðustu kosningum og enn eigum við eftir að sjá þing koma saman þar sem kynjahlutföll eru jöfn. Samt sem áður hefur Ísland náð einna mestum árangri í jafnréttismálum. Það er eðlileg krafa að þjóðþing endurspegli þjóðina. Þess vegna er bæði eðlilegt og sjálfsagt að konur og karlar séu nokkurn veginn í jöfnum hlutföllum á þingi. Rannsóknir benda til þess að það skipti mjög miklu máli að konur hafi áhrif í stjórnmálum. Þær leggja oft áherslu á önnur mál en karlar. Konur á þingi hafa til dæmis alla tíð beitt sér fyrir málum sem skipta konur máli, eins og réttindi kvenna og barna. Árið 1922 þótti konum til að mynda vanta talsmann velferðarmála inn á þing og í ávarpi kosninganefndar kvenna var minnt á að konur sæju heiminn öðrum augum en karlar. Stjórnmálaflokkar eru flestir meðvitaðir um mikilvægi þess að hafa fulltrúa beggja kynja í sínum röðum og því þarf líklega ekki að hafa miklar áhyggjur af því að konum fari fækkandi á ný. En þar með er björninn ekki unninn að fullu. Stjórnmálin eru enn talsvert karllæg. Helga Guðrún Jónasdóttir formaður Kvenréttindafélags Íslands orðaði það sem svo í sínu erindi í gær að baráttan snúist ekki lengur um aðgang kvenna að stjórnkerfinu og rétt á völdum, heldur um það að beiting valds af hálfu kvenna öðlist viðurkenndan sess – að konur séu jafnvel til þess fallnar að stjórna og karlar. Það er holl og þörf áminning að rýna í söguna og rifja upp hversu margt hefur breyst til batnaðar á ekki lengri tíma en einni mannsævi. En tímamót eins og þau sem minnst var um helgina eru líka áminning um allt sem enn á eftir að breyta.