Skoðun

Lengi hefur Fjallkonan hrópað á hjálp!

Herdís Þorvaldsdóttir skrifar
Árið 1888, fyrir 124 árum, heldur Jón Bjarnason prestur, fyrst í Álftafirði og svo í Gimli í Nýja Íslandi, erindi um Ísland. Það var flutt í Dakota á 4. ársþingi hins ev.lút. kirkjufélags í Vesturheimi. Erindið fjallar að mestu leyti um hina skelfilegu gróðureyðingu á Íslandi. Síðan að skóginum var eytt sé hún orðin mjög hraðfara, nú liggi jarðvegurinn sem er ekki þegar eyddur opinn fyrir algerri eyðileggingu. Á meðan fjallshlíðarnar, holtin og hæðirnar voru hrísi vaxnar hélst jarðvegurinn kyrr. Það var ekki heyjað nóg fyrir skepnurnar sem settar voru á. Þess í stað var treyst sem mest á vetrarbeit sem var, og er, einhver versta landnýting sem hugsast getur, segir landfræðingurinn Ólafur Arnalds.

Vetrarbeit er nú að mestu hætt í dag en í staðinn hefur fé bænda sem rányrkja landið fjölgað mikið án nokkurrar ábyrgðar þeirra á afleiðingunum. Á seinni hluta síðustu aldar voru um tíma 2.000.000 fjár á sumarbeit. Þá stórjukust skemmdir á gróðurlendi á stuttum tíma. Síðan var reynt að fækka fénu, aðallega vegna óhemju kostnaðar við að borga bændum fyrir að framleiða allt þetta óþarfa fé og svo til að losna við alla offramleiðsluna.

Þetta kostaði okkur tugi milljóna á hverju hausti í áratugi. Bæði í útflutningi sem var niðurgreiddur af okkur skattborgurunum og urðun á afganginum sem losna þurfti við úr frystihúsunum. Þetta er auðvitað þrautpíndur gróður landsins sem við erum að farga með þessum skepnum eða niðurgreiða ofan í aðrar þjóðir. Enn er mikil offramleiðsla. Til hvers? Síðan krónan féll í bankahruninu hefur útflutningurinn nokkurn veginn staðið undir sér. En við skattborgararnir sem höfum borgað bændum rúma 4 milljarða á ári fyrir að framleiða þessar skepnur fáum ekkert og ofbeitin skaðar stöðugt landið. Landgræðslan þarf að elta uppi skemmdirnar, aftur fyrir okkar pening. Fólk er almennt farið að gera sér grein fyrir hvað þessi fornyrkjubúskapur, lausabeit á landinu, kostar okkur.

Bændaforystan berst þó á móti öllum breytingum og vill áfram nýta landið okkar algerlega eftir sínum þörfum og lokar augunum fyrir afleiðingunum. Þeir eru jafnvel svo ósvífnir að hvetja bændur til að stækka fjárstofninn til að hægt sé að auka útflutninginn, á okkar kostnað, um helming. Þá yrðu hátt í tvær milljónir fjár að naga þann gróður sem eftir er og dygði ekki til. Er þetta ekki ósvífin græðgi þar sem búið er að sýna fram á að álagið á landið er þegar allt of mikið? Að auki hefur Landgræðslan varla undan að græða skemmdirnar og rækta upp beitilönd á okkar kostnað fyrir þennan sauðfjárflota bændanna! Virðingarleysið gagnvart okkur skattborgurum og landinu er án allra takmarkana. Nú vilja nokkrir bændur fá að reka aftur fé sitt á afrétt sem búið var að gereyða og þess vegna ekki nýttur í rúman áratug svo ekki þurfti að halda við girðingu sem girti hann frá Þórsmörk. Þessi stóra afrétt var kölluð Almenningar og er farið um hana á kafla á Laugarvegsgöngunni þekktu.

Eitthvað hefur verið þar unnið að uppgræðslu á þessum árum og smá gróðurblettir að myndast og birkikjarr. Hún er samt alls ekki tilbúin til beitar og eyðilegðist þá fljótt árangur friðunarinnar, segir Landgræðslan. Auk þess ætti bitvargurinn þá greiða leið inn í Þórsmörkina sem búið er að friða í sjötíu ár.

Til að koma í veg fyrir að gróðurinn í Þórsmörkinni verði aftur að sauðfjárfóðri verður Landgræðslan (við) að girða aftur þarna á milli. Það kostar Landgræðsluna (okkur) tugi milljóna, einungis vegna sauðkinda nokkurra bænda sem segjast eiga rétt á beitinni því friðunartíminn sé búinn. Það eru mörg fornaldarlög enn í gildi síðan við vorum bara bændasamfélag og eru löngu úrelt. Þeir geta haldið því fram að þetta sé löglegt en siðlaust er það og bætir ekki orðspor bændastéttarinnar að sýna þvílíka eigingirni og tillitsleysi gagnvart okkur hinum og landinu.

Höfum við engan rétt? Verðum við látin borga þessa girðingu? Einungis til að nokkrir bændur geti klárað aftur gróðurinn á afréttinni fyrir ofan? Hvar eru hetjurnar á Alþingi sem eiga að gæta hagsmuna lands og þjóðar? Þessi yfirgangur bændastéttarinnar gagnvart nýtingu á landinu vegna úreltra laga er orðinn óþolandi fyrir okkur hina íbúa þessa lands. Þessu verður að breyta. Ég tek það fram að ég veit að einhverjir bændur eru farnir að átta sig á ástandinu og finnst sjálfsagt að stunda sinn búskap á sínu landi en ekki annarra í þeirra óþökk og bera ábyrgð á sínum skepnum. Þeir eru til sóma og heill sé þeim. Vonandi getum við komið okkur saman um að búa í landinu án þess að rýra stöðugt gæði þess fyrir stundarhagsmuni fárra útvaldra. Þegar sauðfjárbændur verða tilbúnir að viðurkenna vandann þá verður einfalt mál að takast á við afleiðingarnar. Fjallkonan er tilbúin að fara að græða sárin sín og klæðast aftur blómskrúði í skjóli skóga. Bara ef hún fær frið til þess.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×