Skoðun

Sið­bót á Al­þingi

Mörður Árnason skrifar

Í frumvarpi sem við Valgerður Bjarnadóttir og níu aðrir þingmenn höfum lagt fram á þinginu er gert ráð fyrir að alþingismenn hætti með öllu að skammta sér laun. Þetta er í þriðja sinn sem við Valgerður flytjum frumvarp um kjör þingmanna, og nú er von til að eitthvað gerist – vegna þess að margir þingmenn hafa undanfarið tekið undir gagnrýni í samfélaginu á ýmsar sporslur sem úthlutað er á þinginu. Nú síðast um gleraugu, heyrnartæki, líkamsrækt og svo framvegis aftan í sakleysislegu þingskapafrumvarpi núna í vor.



Við leggjum til að allar ákvarðanir um laun þingmanna, svokallað þingfararkaup og tengdar greiðslur, verði framvegis í höndum Kjararáðs. Nú er ákvörðun um grunnlaun hjá Kjararáði, en í lögum um þingfararkaupið eru ákvæði um að alls kyns störfum og titlum á þinginu fylgi álagsgreiðslur, 5–30%. Formenn nefnda og þingflokka fá álag, formenn stjórnarandstöðuflokka, fólk í forsætisnefnd, varaformaður nefndar fær álag og meira að segja 2. varaformaður nefndar, titill sem var búinn til í fyrra í nánast fullkomnu tilgangsleysi, hann fær álag blessaður garmurinn. Staðan er núna þannig að um það bil 38 þingmenn fá svona álagsgreiðslu, af þeim 54 sem ekki sinna ráðherra- eða forsetastörfum. Bara 16 eru álagslausir – eins konar undirstétt á þinginu!



Flutningsmenn frumvarpsins eru ekki einkum að hugsa um peningaþáttinn í þessu, heldur fyrst og fremst prinsippið. Annaðhvort tekur Alþingi á sig þá ábyrgð alla að ákveða laun þingmanna – eða felur öðrum, Kjararáðinu, að sjá um þetta allt. Núverandi ástand býr til feluleik með raunveruleg laun kjörinna fulltrúa. Það er í andstöðu við þá siðbót sem við erum að reyna í samfélaginu eftir hrun, og á að ljóma skærast á sjálfu Alþingi.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×