Skoðun

"Hrapalleg mistök“ Bjarna

Össur Skarphéðinsson skrifar
Skákblinda heitir það, þegar menn leika hroðalega af sér á taflborðinu. Bjarni Benediktsson lék illa af sér fyrir hönd Íslands þegar hann lýsti yfir, að hann vildi slíta aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið.

Tillaga hans gengur þvert á niðurstöðu nýlegrar skýrslu Seðlabankans, sem segir það svart á hvítu að Íslendingar þurfi að velja á milli tveggja kosta í gjaldmiðilsmálum: Halda krónunni í einhvers konar höftum, eða ganga í Evrópusambandið og taka upp evru í bættum herklæðum.

Í því ljósi er beinlínis skaðlegt hagsmunum Íslendinga að taka af landsmönnum þann möguleika að velja á milli þessara tveggja kosta. Það felst þó í stefnu Bjarna.

Skýrsla Seðlabankans svipti burt þeirri goðsögn að krónan væri tæki til að jafna sveiflur. Niðurstaðan var þveröfug. Krónan sjálf er uppspretta sveiflna – segir skýrslan. Hún er sveifluvaki fremur en sveiflujafnari. Krónan leiðir beinlínis til hærri vaxta. Evran á hinn bóginn jafnar sveiflur, lækkar vexti, gæti lækkað viðskiptakostnað árlega um 5-15 milljarða króna og aukið vöruviðskipti um 65 – 179 milljarða króna á ári. Íslendingar munu hins vegar aldrei eiga þess kost að velja að njóta þessara ávinninga evrunnar ef stefna Bjarna Benediktssonar nær fram að ganga.

Það væri því beinlínis í andstöðu við hagsmuni þjóðarinnar að taka upp stefnu Bjarna um að slíta viðræðunum við Evrópusambandið og taka þannig frá Íslendingum þann möguleika að Íslendingar gætu einhvern tíma í framtíðinni tekið upp evruna telji landsmenn það farsælast fyrir hagsmuni þjóðarinnar.

Einn farsælasti formaður og forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins síðustu áratugi, Þorsteinn Pálsson, sagði að með þessu yrðu Bjarna á hrapallegustu mistök í utanríkispólitískum efnum, sem nokkur formaður Sjálfstæðisflokksins hefði nokkru sinni gert. Þyngri dóm er ekki hægt að fella.

Rifja má upp, að landsfundur Sjálfstæðisflokksins felldi, ekki einu sinni heldur tvisvar, tillögu um að slíta viðræðum við ESB. Í hvaða umboði talar þá formaður Sjálfstæðisflokksins?




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×