Skoðun

Þjóðhollusta

Mörður Árnason skrifar

Á 19. öld fólst þjóðhollusta í sjálfstæðisbaráttu, framfaratrú og Danahatri. Þeir tímar eru liðnir, sem betur fer! – en kannski getur hugtakið haft gildi ennþá á 21. öld: Að vera hollur þjóð sinni, vilja veg hennar sem mestan og þó einkum sem bestan, auðvitað án nokkurra illinda við annað fólk í heiminum.



Mér sýnist einmitt þetta orð eiga vel við um þátttöku í atkvæðagreiðslunni um stjórnarskrárdrögin laugardaginn 20. október. Eftir að yfir dundu fjárhagslegar, pólitískar og sálrænar hörmungar fyrir réttum fjórum árum hefur okkur þrátt fyrir allt tekist að vinna vel á nokkrum mikilsverðum sviðum. Eitt af þessu er stjórnarskrárverkið þar sem mikill meirihluti landsmanna ákvað að endurnýja fornfáleg og gölluð grunnlög sem eiga sinn þátt í aðdraganda hrunsins og eftirmálum. Þjóðfundur, almennt kjör stjórnlagafulltrúa, einróma niðurstaða ráðsins, vinna í þinginu og svo aftur út til þjóðarinnar – þegar menn líta yfir þetta og leggja til hliðar gleraugu gremjunnar og sjónauka yfirlætisins kemur í ljós merkileg lýðræðistilraun sem hefur fætt af sér margskonar umbótatillögur í frumvarpsdrögunum frá stjórnlagaráðinu. Erlendis er mjög spurt um þetta starf, svo sem þar sem ég hef starfað á Evrópuráðsþinginu í Strassborg, og þykir til fyrirmyndar.



Nú erum við kvödd að kjörborðinu til að veita leiðsögn um framhaldið. Sjálfur tel ég að það eigi hiklaust að starfa áfram á grundvelli tillagnanna frá ráðinu. Ég fagna líka efnisspurningunum, alveg sérstaklega þeirri um þjóðareign Íslandsauðlinda. Aðrir hafa sína skoðun á þessum álitamálum, eins og gengur.



Það sem skiptir mestu máli er að Íslendingar taki sem flestir þátt í að móta framtíð lands og fólks með því að taka nú afstöðu til stjórnarskrármálsins og greiða atkvæði hinn 20. október (eða fyrr, svo sem í Laugardalshöll 10–20 alla daga). Til þess hvet ég alla þjóðholla karla og konur.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×