Fataval Ann Romney fær enga athygli og enginn hönnuður vill þýðast hana. Öðru máli gildir um Michelle Obama, sem er í miklu uppáhaldi.
Uppi er sú kenning að Anna Wintour, ritstjóri bandaríska Vogue og ein valdamesta kona tískubransans, hafi óskað eftir því að hönnuðir klæddu ekki Ann Romney, eiginkonu forsetaefnis rebúblikana. Wintour er mikill stuðningsmaður Obama og hefur meðal annars lagt töluvert fé í kosningabaráttu hans.
Michelle Obama fær gríðarlega umfjöllun í tískumiðlum og bíða hönnuðir í röðum eftir því að fá að klæða forsetafrúna, enda seljast flíkurnar upp á örskotstíma eftir að Obama sést klæðast þeim. Öðru máli gildir þó um Romney. Þegar Ann Romney klæddist kjól frá hönnuðinum Diane von Furstenberg voru einu orð hönnuðarins þau að hún vissi ekki hvaðan Romney hefði fengið flíkina.
Vefsíðan Fashionista.com vakti fyrst athygli á málinu. „Við fáum ótal fréttatilkynningar frá hönnuðum þegar Michelle Obama klæðst flík frá þeim. En við höfum ekki fengið eina einustu tilkynningu varðandi fataval Romneys," sagði blaðamaður síðunnar.
Blaðafulltrúinn Lee Everett sagði Fox News: „Tískuiðnaðurinn er að meirihluta vinstrisinnaður. Margir hönnuðir og tískuhús vilja ekki tengjast Repúblikanaflokknum vegna afstöðu flokksins til hjónabands samkynhneigðra og fóstureyðinga."
En hvað hefur Wintour með þetta að gera? Sumir vilja meina að Wintour hafi hótað tískuhúsum því að ekki yrði fjallað um hönnun þeirra í Vogue, stærsta tískublaði heims, tækju þeir upp á því að gefa eða lána Romney flíkur. Og þeir eru fáir sem þora að óhlýðnast drottningu tískuheimsins.
Lífið