Skoðun

Varnarsamvinna og Norðurlöndin

Einar Benediktsson skrifar
Íslendingar eiga því láni að fagna á þessu herrans ári að ekki steðjar hætta að landinu af hernaðarógn. Öðru máli gegndi vissulega á árum kalda stríðsins þegar Ísland skipaði sér í varnarsamstarf lýðræðisþjóða í Atlanshafsbandalaginu. Aðildin varð mesta átakamál íslenskra stjórnmála en öfgaöfl á vinstri vængnum með Þjóðviljann sem málgagn börðust af ákefð gegn varnarliðinu og NATO sem tryggði friðinn. Og eitthvað eimir enn eftir af NATO-óvild, ef merkja má ummæli Árna Þórs Sigurðssonar, formanns utanríkismálanefndar Alþingis, í RÚV 30.11. um þátttöku Svía og Finna í loftrýmisgæslunni sem um samdist við brottför Bandaríkjahers héðan 2006.

Norðurlandaríkin hafa stigið það spor, þeim og öðrum til gæfu og gagns, að eiga samstarf á sviði varnarmála á tímum umróts í heimsmálum. Upphaf þessa máls var skýrsla nefndar sem Thorvald Stoltenberg stýrði og er sögulegt frumkvæði um nýtt átak Norðurlandaríkjanna. Við brottför Bandaríkjahers frá Keflavík 2006 má heita að öll umræða á Íslandi um öryggismál hafi dottið í dúnalogn og margt tekið að falla í gleymsku. Friður eða alþjóðlegur stöðugleiki eru markmið, sem vinna verður að með þjóðum sem við eigum með hugsjónalega samleið um þjóðfélagslegt frelsi. Ekkert er sjálfgefið varðandi þá ógn, sem að kann að steðja og ræða ber á grundvelli greininga sem Íslendingar sjálfir geta lagt til. Þetta var eitt hlutverk Varnarmálastofnunar sem illu heilli var lögð niður.

Raunveruleikinn býður ekki upp á annað en árvekni. Ísland er við norðurskautið, sem er ríkt af ónýttri orku, og þess er skammt að bíða að við verðum í alfaraleið mikilla sjóflutninga. Lega okkar dregur að sér aðra sem hér vilja varanlega aðstöðu og gætu gengið hart fram. Þá eru á ferðinni nýjar ógnir eins og skipulögð glæpastarfsemi, hryðjuverk, umhverfisslys og fjarskipta- eða netárásir. Orkuöryggi má heita lífsskilyrði í einangruðu landi. Í NATO eru Eistlendingar í broddi fylkingar varðandi samvinnu um netöryggi enda orðið fyrir árásum Rússa á því sviði.

Árni Þór boðar skýrslu um þjóðaröryggi þar sem vænta má að sú eina sýnilega vernd sem við njótum, loftrýmiseftirlit af hálfu vinaríkja, verði afþökkuð. Hvernig verður samvinnu varðandi norðurskautið háttað? Vonandi sendi skáldið Huang Nabo okkur lokakveðjuna í Der Spiegel fyrir nokkrum dögum. Þá snertir aðild að ESB einnig öryggismál. Þótt Evrópusambandið sé ekki varnarbandalag felst óumdeilanlega öryggi í að vera innan sameiginlegra landamæra þess. Efnahagslegt öryggi Íslands er háð þátttöku í frjálsum innri markaði Evrópusambandsins. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið tryggir ekki það meginmarkmið, hvorki í náinni bráð eða til framtíðar. Það krefst ESB-aðildar sem þjóðinni ber að samþykkja eða hafna þegar fyrir liggur samningur þar um, sem tekur tillit til séraðstæðna okkar.

Verða alþingiskosningarnar 2013 örlagatími um stefnu Íslands í öryggis- og varnarmálum?




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×