Skoðun

Loftslagsvandinn kallar á þátttöku kvenna

Áhrif loftslagsbreytinga koma misjafnt niður á samfélögum og þjóðfélagshópum. Loftslagsbreytingar hafa líka ólík áhrif á kynin. Þetta á sérstaklega við í fátækari ríkjum, þar sem konur bera meginábyrgð á því að afla eldiviðar og drykkjarvatns fyrir heimilin og sinna bústörfum í meiri mæli en karlar. Þetta eru verk sem loftslagsbreytingar gera þyngri.

Ísland hefur undanfarin ár haldið þessum sjónarmiðum á loft í alþjóðlegum viðræðum um Loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna og er nú svo komið að kynjasjónarmið hafa verið ofin víða inn í ákvarðanir samningsins. Þetta þýðir ekki að líta eigi á konur fyrst og fremst sem þolendur loftslagsbreytinga. Konur eiga og verða að vera virkir gerendur í stefnumótun og verkefnum í loftslagsmálum. Einfalt og skýrt skref í þá átt er að tryggja jafna aðkomu kynjanna að viðræðum innan Loftslagssamningsins.

Á nýloknum fundi í Doha í Katar var samþykkt sérstök ákvörðun um jafnréttismál, sem gengur fyrst og fremst út á að tryggja jafna þátttöku kynjanna í samningavinnunni. Konur eru um þriðjungur fulltrúa í sendinefndum ríkja á fundum loftslagssamningsins og í forsvari fyrir aðeins fjórðung sendinefndanna. Ísland var meðal flutningsmanna tillögunnar sem var unnin að frumkvæði Mary Robinson, fyrrverandi forseta Írlands, og sýnir vel hverju öflugar konur geta komið til leiðar. Orð eru til alls fyrst en aðgerða er þörf. Í Doha kynntu fulltrúar Íslands verkefni sem unnið hefur verið í samstarfi við Úganda, sem miðar að því að þjálfa starfsmenn héraðsstjórna í að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga, þannig að tillit sé tekið til ólíkra hlutverka og hlutskipta kynjanna. Um 80% íbúa Úganda stunda sjálfsþurftarbúskap, sem loftslagsbreytingar hafa mikil áhrif á. Konur sinna þeim störfum frekar en karlar, sem oft vinna frekar utan heimilisins. Byrðar loftslagsbreytinga lenda því í ríkari mæli á konum en körlum og viðbrögð stjórnvalda þurfa að endurspegla þá staðreynd.

Viðbrögð við loftslagsvánni kalla á atbeina allra, af báðum kynjum. Þar þarf að stuðla að jafnrétti og aukinni virkni kvenna. Við megum vera stolt af aðkomu Íslands við að efla hlut kvenna í þessu risavaxna hagsmunamáli alls mannkyns.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×