Körfubolti

Fimmti sigur Keflvíkinga í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valur Orri Valsson.
Valur Orri Valsson. Mynd/Daníel
Keflvíkingar fögnuðu sínum fimmta sigri í röð og stöðvuðu þriggja leikja sigurgöngu Ísfirðinga með því að vinna níu stiga sigur á KFÍ, 111-102, í leik liðanna í Domnos-deild karla í Toyota-höllinni í Keflavík í kvöld.

Keflavíkuliðið er nú búið að vinna alla fimm deildarleiki sína með Billy Baptist innanborðs en hann var einn af þremur leikmönnum liðsins sem brutu 20 stiga múrinn í kvöld.

Michael Craion var með 32 stig og 15 fráköst fyrir Keflavík í þessum leik og Valur Orri Valsson gældi við þrennuna með 26 stigum, 8 fráköstum og 8 stoðsendingum. Billy Baptist skoraði 20 stig.

KFÍ byrjaði þó vel og var fimm stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann, 29-24. Keflavíkingar tóku hinsvegar öll völd í öðrum leikhlutanum sem þeir unnu 31-14 og voru þar með komnir með tólf stiga forskot í hálfleik, 55-43. Keflavíkurliðið var síðan með örugg tök á leiknum í seinni hálfleiknum.

Damier Erik Pitts (37 stig og 8 stoðsendingar) braut 30 stiga múrinn í áttunda leiknum í röð en það dugði ekki fyrir Ísafjarðarliðið. Tyrone Bradshaw var með 22 stig en Kristján Pétur Andrésson skoraði 15 stig og tók 15 fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×