Körfubolti

Grindvíkingar áfram sigursælir í Ljónagryfjunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Samuel Zeglinski
Samuel Zeglinski Mynd/Anton
Njarðvíkingar hafa ekki unnið Grindavík í heimaleik á Íslandsmótinu síðan í mars 2008 og það breyttist ekki í kvöld. Grindvíkinga unnu leikinn með tólf stigum, 96-84, og fögnuðu þar sem sínum sjötta sigri í röð í Ljónagryfjunni.

Grindvíkingar eru áfram í efsta sæti deildarinnar nú með tveggja stiga forskot á Snæfell. Þórsarar eru fjórum stigum á eftir en eiga leik inni á móti Stjörnunni annað kvöld.

Samuel Zeglinski átti stórleik í liði Grindavíkur en hann var með 30 stig og 7 stoðsendingar en þeir Aaron Broussard og Sigurður Gunnar Þorsteinsson voru með 17 stig, Þorleifur Ólafsson skoraði 16 stig og Jóhann Árni Ólafsson var með 15 stig.

Nigel Moore var stigahæstur hjá Njarðvík með 21 stig, 10 stoðsendingar og 7 fráköst en Elvar Már Friðriksson skoraði 18 stig og gaf 6 stoðsendingar.

Grindvíkingar voru skrefinu á undan allan leikinn, unnu fyrsta leikhlutann 22-21, voru fimm stigum yfir í hálfleik, 45-40, og með níu stiga forskot fyrir lokaleikhlutann, 75-66.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×