Fótbolti

Benitez: Þurfum skarpari sóknarleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafael Benitez, stjóri Chelsea.
Rafael Benitez, stjóri Chelsea. Nordic Photos / Getty Images
Rafael Benitez, stjóri Chelsea, kvaðst ánægður með að fara heim frá Tékklandi með 1-0 sigur á Sparta Prag í farteskinu.

Í kvöld fór fram fyrri viðureign liðanna í 32-liða úrslitum Evrópudeildar UEFA en sú síðari fer fram í Lundúnum í næstu viku.

„Við byrjuðum virkilega vel í leiknum og sköpuðum okkur nokkur færi á fyrstu 20 mínútunum," sagði Benitez á blaðamannafundi eftir leikinn í kvöld.

„Síðan tóku þeir við og settu pressu á okkur í vörninni. Við lentum í smá vandræðum þar. Varnarmennirnir sjálfir stóðu sig vel en okkur gekk illa að verjast sem ein liðsheild."

„Við breyttum aðeins til fyrir seinni hálfleikinn og höfðum meiri stjórn á leiknum. Einbeiting leikmanna var mun betri. Það er ekki slæmt að eiga átján marktilraunir á útivelli en við þurfum að vera skarpari í okkar sóknarleik."

Chelsea er ríkjandi Evrópumeistari eftir sigur í Meistaradeild Evrópu á síðasta tímabili en nú þurfa leikmenn liðsins að sætta sig við að spila í Evrópudeild UEFA.

„Þetta er sú keppni sem við þurfum að spila í en við þurfum að gera okkur grein fyrir því að þetta er tækifæri til að vinna bikar, sem okkur mun vonandi takast."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×