Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: KR - Stjarnan 75-87

Henry Birgir Gunnarsson í DHL-höllinni skrifar
Stjörnumenn fóru góða ferð vestur í bæ í kvöld þar sem þeir unnu sanngjarnan og nokkuð sannfærandi sigur á slökum KR-ingum.

Það voru heimamenn sem byrjuðu leikinn betur en undir lok fyrsta leikhluta tóku gestirnir völdin og þeir leiddu með sjö stigum, 18-25, eftir fyrsta leikhluta.

Annar leikhlutinn var sýning hjá gestunum sem hreinlega pökkuðu heimamönnum saman á báðum endum vallarins. Það var vandræðalegt fyrir heimamenn hversu miklir yfirburðir gestanna voru.

Munurinn 15 stig í hálfleik, 39-54. Frye með 16 stig fyrir Stjörnuna og þeir Jovan og Justin með 12. Brynjar Þór langstigahæstur hjá KR með 13 stig.

Stjörnumenn höfðu yfirhöndina í þriðja leikhluta og fátt sem benti til þess að KR myndi gera nokkurn skapaðan hlut. Þeir áttu aftur á móti frábærar lokamínútur í leikhlutanum og komu sér inn í leikinn. 63-72 þegar einn leikhluti var eftir.

KR-ingar náðu ekki að fylgja þessu fína áhlaupi eftir og Garðbæingar fögnuðu sanngjörnum sigri.

Jarrid Frye frábær í þeirra liði. Justin og Jovan líka frábærir eins og svo oft áður. Þegar þetta lið fer á flug eiga fá, ef einhver, lið möguleika gegn þeim.

KR-ingar heilt yfir slakir í kvöld. Enginn afburðamaður í þeirra liði. Kanavandamálin enn til staðar og það er hreinlega með ólíkindum að maður eins og McClellan sé að fá borgað fyrir að spila körfubolta á Íslandi.

Fannar: Erum með besta liðið á landinu

"Þetta var þægilegra en ég átti von á. Við stýrðum hraðanum svolítið í leiknum. Ég held að það hafi ráðið úrslitum," sagði Fannar Freyr Helgason, fyrirliði Stjörnunnar.

"KR er með mikið áhlaupslið og komu til baka í lok þriðja leikhluta. Þá þurftum við bara að halda haus og okkur tókst það mjög vel.

"Við erum með mjög mörg vopn eins og við sýndum í dag. Ef einhver á lélegan dag þá stíga aðrir einfaldlega upp. Ég er mjög ánægður með liðið í dag," sagði Fannar en er Stjarnan með besta liðið á landinu?

"Að mínu mati er það ekki spurning. Maður verður að hafa trú á sjálfum sér."

Brynjar Þór: Lítið sjálfstraust hjá okkur

KR-ingurinn Brynjar Þór Björnsson var ekki upplitsdjarfur eftir tapið í kvöld enda var KR liðið hreinlega slakt.

"Við vorum slakir á allan hátt. Sérstaklega í fyrri hálfleik en það kom smá neisti í þeim seinni. Í heildina var þetta samt ekki gott. Það verður bara að segjast eins og er," sagði Brynjar.

"Við höfum núna tæpar þrjár vikur fram að úrslitakeppni til þess að bæta okkar leik og ef það tekst þá verðum við hættulegir. Eins og staðan er í dag erum við ekki nógu góðir."

KR-ingar virtust lengi vel ekki hafa nokkra trú á því sem þeir voru að gera og Brynjar viðurkennir að það vanti talsvert upp á sjálfstraustið hjá þeim.

"Sjálfstraustið er ekki gott og febrúar-mánuður hjá mér er einn sá versti í manna minnum. Ég held að ég hafi ekki spilað svona illa síðan ég byrjaði í meistaraflokki. Þar kemur skortur á sjálfstrausti inn. Ef maður hefur ekki trú á sjálfum sér þá gerist lítið. Það skín í gegn að sjálfstraustið er ekki mikið hjá okkur."

KR-Stjarnan 75-87 (18-27, 21-27, 24-18, 12-15)

KR: Brynjar Þór Björnsson 18/5 fráköst/6 stoðsendingar, Martin Hermannsson 13, Brandon Richardson 13/5 fráköst/8 stoðsendingar, Kristófer Acox 10/10 fráköst, Helgi Már Magnússon 8, Jón Orri Kristjánsson 5, Darshawn McClellan 5/4 fráköst, Finnur Atli Magnusson 3, Illugi Steingrímsson 0, Emil Þór Jóhannsson 0, Högni Fjalarsson 0, Ragnar Jósef Ragnarsson 0.

Stjarnan: Jarrid Frye 32/12 fráköst, Justin Shouse 21/5 fráköst/6 stoðsendingar, Jovan Zdravevski 17/8 fráköst, Brian Mills 8/7 fráköst, Fannar Freyr Helgason 4, Kjartan Atli Kjartansson 3/5 fráköst, Dagur Kár Jónsson 2, Oddur Rúnar Kristjánsson 0, Tómas Þórður Hilmarsson 0, Sæmundur Valdimarsson 0, Magnús Bjarki Guðmundsson 0, Daði Lár Jónsson 0.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Einar Þór Skarphéðinsson, Ísak Ernir Kristinsson

Hér að neðan má lesa leiklýsingu leiksins.

KR-Stjarnan 75-87 (18-27, 21-27, 24-18, 12-15)

KR: Brynjar Þór Björnsson 18/5 fráköst/6 stoðsendingar, Martin Hermannsson 13, Brandon Richardson 13/5 fráköst/8 stoðsendingar, Kristófer Acox 10/10 fráköst, Helgi Már Magnússon 8, Jón Orri Kristjánsson 5, Darshawn McClellan 5/4 fráköst, Finnur Atli Magnusson 3.

Stjarnan: Jarrid Frye 32/12 fráköst, Justin Shouse 21/5 fráköst/6 stoðsendingar, Jovan Zdravevski 17/8 fráköst, Brian Mills 8/7 fráköst, Fannar Freyr Helgason 4, Kjartan Atli Kjartansson 3/5 fráköst, Dagur Kár Jónsson 2.

Leik lokið | KR-Stjarnan 75-87: Sanngjarn sigur Garðbæinga.

4. leikhluti: Tíminn að hlaupa frá KR-ingum. Þetta er ekki að ganga hjá þeim. Stjarnan mun sigla þessu heim. Sama staða og 1.30 mín eftir.

4. leikhluti: Þrjár mínútur eftir. Ná KR-ingar álíka áhlaupi og í lok þriðja leikhluta? 71-84 fyrir Stjörnuna.

4. leikhluti: Stjarnan ekki að gefa færi á sér þrátt fyrir fínt áhlaup heimamanna. 71-83 og 4 mín eftir.

4. leikhluti: Justin með risaþrist. Staðan 66-81 og KR tekur leikhlé.

4. leikhluti: Netið aðeins að stríða okkur en erum komin aftur í samband.

3. leikhluti : Fínn sprettur hjá KR-ingum. Loksins almennilegt líf í þeim. Richardson minnkar muninn í níu stig, 59-68. Þetta er aftur orðinn leikur. Mínúta eftir af leikhlutanum.

3. leikhluti: Stjörnumenn eru með öll tök á þessum leik og nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að KR-ingar séu að fara að girða sig í brók. 47-64 og 3.30 mín eftir af leikhlutanum.

3. leikhluti: Ekki batnar það hjá KR. 42-62 og þeir taka leikhlé.

3. leikhluti: Enginn sérstakur vígahugur í KR í upphafi síðari hálfleiks. McClellan tókst þó að skora körfu sem eru tíðindi út af fyrir sig. 42-56 og 8 mín eftir af leikhlutanum.

Hálfleikur | KR-Stjarnan 39-54: KR-ingar byrjuðu leikinn betur en undir lok fyrsta leikhluta tóku Stjörnumenn völdin. Þeir hreinlega léku sér síðan að heimamönnum á báðum endum vallarins allan annan leikhluta. Yfirburðir gestanna voru neyðarlega miklir. Stjarnan með 64% tveggja stiga nýtingu og 66,6% þriggja stiga nýtingu. KR er með 37,5% og 33,3%. Brynjar Þór stigahæstur hjá KR með 13 stig. Frye með 16 stig fyrir Stjörnuna og Justin og Jovan 12.

2. leikhluti: Þriggja stiga nýting Stjörnunnar er betri en vítanýting KR. 32-52 og 2 mín til hlés.

2. leikhluti: Þetta er að verða neyðarlegt. Stjörnumenn leika KR-inga hér sundur og saman. Stendur ekki steinn yfir steini í leik heimamanna sem virðast vera þrem klössum fyrir neðan Stjörnuna. 27-49 og 4 mín til hálfleiks.

2. leikhluti: Richardson lenti illa á olnboganum áðan en hristi það af sér. Stjarnan enn í miklu stuði. 26-40 og rúmar 5 min til leikhlés.

2. leikhluti: McClellan verið ekkert nema hörmulegur hjá KR og er réttilega farinn á bekkinn. Stjörnumenn í miklu stuði og KR-ingar ráða ekkert við þá. 25-37 þegar 7 mín eru til hálfleiks.

2. leikhluti: Stjörnumenn fóru á 16-1 skrið. Það fer allt niður hjá þeim. Leiða 20-32 þegar 8 mín eru til hálfleiks.

1. leikhluti | KR-Stjarnan 18-25: Heimamenn leiddu framan af en Stjörnumenn tóku síðan góðan kipp. Richardson stigahæstur hjá KR með sjö stig. Frye hefur skorað níu fyrir gestina.

1. leikhluti: Shouse með þrist og kemur Stjörnunni yfir í fyrsta skipti, 17-19. Stjörnumenn bæta í og leiða nú 17-23.

1. leikhluti: KR tekur leikhlé. Liðið er einu stigi yfir, 17-16, og 3 mín eftir af fyrsta leikhluta.

1. leikhluti: Jafnræði það sem af er og verður vonandi áfram. Richardson kominn með sjö stig fyrir KR. 14-11 fyrir heimamenn og 4.30 mín eftir.

1. leikhluti: Léleg þáttaka hjá leikmönnum í mottumars. Brynjar Þór sá eini sem skartar almennilegra mottu. Virðing á það. Fer honum líka vel.

1. leikhluti: Shouse skorar fyrstu körfu leiksins fyrir Stjörnuna. Richardson svarar með því að setja tvo þrista niður. Kjartan Atli svar með fyrsta þristi Stjörnunnar. Brynjar Þór vill líka vera með og setur niður þrist. Þristafestival hér í upphafi. 8-5 fyrir KR.

Fyrir leik: KR er með nýjan aðstoðarþjálfara á bekknum í kvöld. Finnur Stefánsson, þjálfari kvennaliðs félagsins, er kominn á bekkinn í stað Gunnars Sverrissonar sem var rekinn á dögunum.

Fyrir leik: Röddin Páll Sævar kynnir liðin til leiks. Besti vallarþulur landsins. Það þarf ekkert að rífast um það.

Fyrir leik: Fólk er farið að fjölmenna á svæðið og fín mæting í grillið hjá KR líkt og venjulega. Fjölmiðlamenn ekki skildir út undan. Greinilega reyndir menn á grillinu því borgarinn var til mikils sóma. Einar Bollason, Hermann Hauksson, Hrafn Kristjánsson, Kolbeinn Pálsson og fleiri stórmenni á svæðinu.

Fyrir leik: Það er enginn Marvin Valdimarsson í liði Stjörnunnar í kvöld en hann ku vera meiddur. Sendum honum batakveðjur.

Fyrir leik: Feðgarnir Kristinn Óskarsson og Ísak Ernir Kristinsson dæma í kvöld ásamt Einari Skarphéðinssyni. Ísak er aðeins 19 ára gamall og þegar orðinn frábær dómari.

Fyrir leik: Tveir synir Jóns Kr. Gíslasonar eru í leikmannahópi Stjörnunnar í kvöld. Það eru þeir Dagur Kár og Daði Lár. Verður gaman að fylgjast með þeim í kvöld.

Fyrir leik: Komiði sæl og blessuð. Vaktin er mætt vestur í bæ. Þar er grillið funheitt og búist við álíka hita inn á vellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×