Körfubolti

Darri upp á spítala en Þórsarar unnu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Darri Hilmarsson.
Darri Hilmarsson. Mynd/Vilhelm
Darri Hilmarsson, lykilmaður Þórsara var fluttur á spítala eftir að hafa meiðst í leik Þórs og Tindastóls í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld. Þórsliðinu tókst þó að klára leikinn án Darra og tryggja sér tveggja stiga sigur, 83-81.

David Jackson skoraði 30 stig fyrir Þórsliðið og Benjamin Smith var með 17 stig þar af 7 þeirra í fjórða leikhlutanum. Guðmundur Jónsson var stigahæstur íslensku leikmanna liðsins með 15 stig.

Drew Gibson var með 21 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar fyrir Tindastól og Helgi Rafn Viggósson skoraði 15 stig.

Fyrsti leikhlutinn var jafn en Þórsarar voru með tveggja stiga forskot við lok hans, 20-18, eftir að David Jackson endaði leikhlutann á því að setja niður þriggja stiga körfu.

Darri Hilmarsson meiddist í fyrsta leikhlutanum og er líklega viðbeinsbrotinn.

Þórsarar voru áfram skrefinu á undan í öðrum leikhluta og leiddu með þremur stigum í hálfleik, 39-36.

Þórsliðið byrjaði seinni hálfleikinn vel og komst fljótlega tíu stigum yfir, 48-38 en Stólarnir minnkuðu þetta niður í þrjú stig, 59-56, fyrir lokaleikhlutann.

Þórsarar héldu áfram frumkvæðinu og voru fimm stigum yfir, 77-72, þegar tæpar tvær mínútur voru eftir en Stólarnir unnu upp þann mun og komust einu stigi yfir, 80-79, þegar hálf mínúta var eftir í kjölfar þess að Þórsarinn David Jackson fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu.

David Jackson bætti fyrir þetta þegar hann tók sóknafrákast og kom Þór aftur yfir, 81-80, þegar 14 sekúndur voru eftir.

Grétar Erlendsson stal boltanum af Tindastólsmönnum í næstu sókn og Guðmundur Jónsson kom Þór í 83-80 með því að setja niður tvö víti þegar þrjár sekúndur voru eftir.

Tindastólsmaðurinn Svavar Birgisson fékk þá tvö víti þegar sekúnda var eftir, nýtti það fyrra en ekki það síðara. Grétar náði frákastinu og sigur Þórs var í höfn.



Þór Þ.-Tindastóll 83-81 (20-18, 19-18, 20-20, 24-25)

Þór Þ.: David Bernard Jackson 30/5 fráköst, Benjamin Curtis Smith 17, Guðmundur Jónsson 15, Grétar Ingi Erlendsson 12/8 fráköst, Darrell Flake 6/9 fráköst, Baldur Þór Ragnarsson 3.

Tindastóll: Drew Gibson 21/9 fráköst/6 stoðsendingar, Helgi Rafn Viggósson 15/8 fráköst, George Valentine 13/9 fráköst, Helgi Freyr Margeirsson 11, Tarick Johnson 11, Svavar Atli Birgisson 4, Hreinn Gunnar Birgisson 3, Þröstur Leó Jóhannsson 3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×