Körfubolti

Njarðvíkingar yfir hundrað stigin í fyrsta sinn í sjö ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nigel Moore.
Nigel Moore. Mynd/Anton
Njarðvíkingar tryggðu sér oddaleik í Stykkishólmi á fimmtudaginn með því að vinna 15 stiga heimasigur á Snæfelli í gær, 105-90, í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Dominos-deildar karla í körfubolta.

Þetta var fyrsti sigur Njarðvíkinga í úrslitakeppni síðan 2010, fyrsti sigur Njarðvíkinga á Snæfelli í úrslitakeppni í sjö leikjum (síðan 1999) og í fyrsta sinn sem Njarðvíkurliðið brýtur hundrað stiga múrinn í tæp sjö ár.

Njarðvíkingar skoruðu 105 stig á móti Snæfelli í Ljónagryfjunni í gær en þeir höfðu ekki skorað yfir hundrað stig í úrslitakeppni síðan í þriðja leik á móti Skallagrím í lokaúrslitunum 2006.

Njarðvík vann þá 107-76 sigur á Borgnesingum í Ljónagryfjunni og tryggði sér síðan Íslandsmeistaratitilinn með 21 stigs sigri í Fjósinu í Borgarnesi í næsta leik á eftir.

Njarðvíkingar voru fyrir kvöldið í gær búnir að leika 29 leiki í röð í úrslitakeppni án þessa að komast yfir hundrað stigin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×