Innlent

Yfirlýsing frá Mýflugi: Engu ábótavant í viðhaldi og tækni þegar flugvélin hrapaði

Kristján Hjálmarsson skrifar
Tveir létust þegar flugvélin hrapaði í Hlíðarfjalli og einn komst lífs af.
Tveir létust þegar flugvélin hrapaði í Hlíðarfjalli og einn komst lífs af.
Engin viðhaldsverk eða tæknileg atriði voru útistandandi þegar flugvél Mýflugs, TF-MYX, hrapaði í Hlíðarfjalli þann 5. ágúst síðastliðinn með þeim afleiðingum að tveir létust. 

Áhöfnin var rétt þjálfuð og hæf til flugsins. Áhöfnin hafði fengið næga tíma til hvíldar, veðuraðstæður voru hagstæðar og nægt eldsneyti var á vélinni. Þetta segir í tilkynningu frá Mýflugi rekstraraðila vélarinnar.

Í tilkynningunni segir að af framangreindu sé ekki hægt að álykta um ástæður slyssins. Réttar niðurstöður fáist trúlega ekki fyrr en Rannsóknarnefnd samgönguslysa skilar endandlegri niðurstöðu rannsóknar sinnar.

„Mýflug aðstoðar Rannsóknarnefndina eftir því sem hún telur að það geti orðið að gagni og vísum við spurningum er varða rannsóknina til hennar,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur einnig fram að Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Mýflugs, hafi skrifað undir samning um kaup á King Air B200 flugvél sem ætlað er að leysa TF-MYX af hólmi. Í tilkynningunni segir að hún sé smíðuð árið 1999 og búin bestu tækjum sem völ er á. Fjármögnun er þó ekki lokið auk þess sem á eftir að innrétta hana til sjúkraflugs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×