Innlent

Svandís fyrsti gesturinn í ferðaþjónustu Valgerðar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins, er orðin ferðaþjónustubóndi. Henni að óvörum reyndist fyrsti gesturinn, eftir að formlega var opnað, vera Svandís Svavarsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra. Þetta kemur fram í þættinum Um land allt, sem hefur göngu sína á ný á Stöð 2 í kvöld.

Valgerður og eiginmaður hennar, Arvid Kro, hafa verið að gera upp gamla íbúðarhúsið á Lómatjörn til að leigja út til ferðamanna og eru búin að setja upp nokkrar sturtur og heitan pott, einkum með gönguhópa í huga. Við ræddum við Valgerði og systur hennar, þær Sigríði og Guðnýju, á veröndinni við heimili hennar.

Í ljósi þess að Valgerður segist stoltust af því frá sínum stjórnmálaferli að hafa stuðlað að álverinu á Austurlandi var kannski ekki við því að búast að fyrsti gesturinn til að beiðast gistingar yrði Svandís Svavarsdóttir. Svandís dvaldi í tvær nætur með fjölskyldu sinni og sagði okkur að það hafi verið yndislegt.

Valgerður sagði að það hafi verið virkilega gaman að fá Svandísi í heimsókn og kvaðst ekki bera kala í brjósti til neins stjórnmálamanns. Meðan hún sat á þingi hafi ástandið aldrei verið svo slæmt að menn hafi ekki talast við. „Það eru bara allir velkomnir til mín," sagði Valgerður.

Rætt er við systurnar á Lómatjörn, þær Sigríði, Guðnýju og Valgerði, í þættinum Um land allt á Stöð 2 í kvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×