Körfubolti

Matthías Orri fékk að fara frá KR og samdi við ÍR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matthías Orri Sigurðsson (annar frá hægri) fagnar bikarsigri með KR 2011.
Matthías Orri Sigurðsson (annar frá hægri) fagnar bikarsigri með KR 2011. Mynd/Daníel
Matthías Orri Sigurðsson, ungi og efnilegi bakvörðurinn í KR, sem var nýkominn heim til Íslands eftir tvö ár í skóla í Bandaríkjunum, mun ekki spila með KR í vetur.

Karfan.is segir frá því að Matthías Orri hafi fengið að rifta samningi sínum við KR-liðið en hann sá ekki fram á mikinn spilatíma eftir að Pavel Ermolinskij samdi við Vesturbæjarliðið.

Matthías Orri er 19 ára og var í Íslandsmeistaraliði KR vorið 2011. Hann er yngri bróðir landsliðsmannsins Jakobs Arnar Sigurðarsonar og hefur spilað með yngri landsliðum Íslands.

Matthías Orri er búinn að fá félagsskipti í ÍR en ÍR og KR mætast einmitt í Lengjubikarnum í DHL-höllinni á morgun.

Örvar Kristjánsson er tekinn við liði ÍR og hann hefur verið fengið til sín efnilega stráka sem fá eflaust stór hlutverk hjá ÍR-liðinu í vetur. Auk Matthíasar hafa Björgvin Hafþór Ríkharðsson og Birgir Þór Sverrisson ákveðið að spila með ÍR í Dominos-deildinni í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×