Körfubolti

Teitur Örlygs gaf alla verðlaunapeningana sína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnumanna í Domnios-deild karla í körfubolta, viðurkenndi það í viðtali við Sverrir Bergmann í þættinum Liðið mitt að þessi einn allra sigursælasti körfuboltamaður Íslands ætti enga hluti til minningar frá mögnuðum ferli sínum.

„Ég væri alveg til í að eiga alla þessa verðlaunabikara og allt þetta dót núna," segir Teitur í spjallinu við Sverri Bergmann.

„Þetta skipti mig ekki máli því ég var alltaf bara að hugsa um eitthvað meira og bara næsta titil. Ég bar ekki virðingu fyrir því sem ég var búinn að gera," sagði Teitur.

Teitur varð tíu sinnum Íslandsmeistari og sjö sinnum bikarmeistari með Njarðvík á árunum 1984 til 2003.

„Amma konunnar minnar klippti alltaf út úr blöðunum og ég sé þetta svolítið hjá henni. Þá er það eitthvað sem ég var löngu búinn að gleyma," sagði Teitur.

„Ég hafði það ekki í mér að safna þessum hlutum og þessu dóti og losaði mig bara við þetta. Gaf krökkum þetta eða eitthvað. Þetta var fólk sem átti kannski bágt og fannst þetta virkilega spennandi," segir Teitur.

Það er hægt að sjá allt viðtalið við Teit með því að smella á tengilinn hér fyrir ofan.

Þátturinn Liðið mitt er á dasgkrá á Stöð 2 Sport á föstudagskvöldum klukkan 18.55 og næst verður fjallað um Val.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×