Erlent

Send í aðrar fangabúðir

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Nadesjda Tolokonnikova við réttarhöld í Moskvu í apríl á síðasta ári.
Nadesjda Tolokonnikova við réttarhöld í Moskvu í apríl á síðasta ári. Mynd/AP

Í hálfan mánuð vissi fjölskylda Nadesjdu Tolokonnikovu ekkert hvar hún væri niðurkomin. Í gær fréttist svo af því að hún væri líklega komin í aðrar fangabúðir, alla leið til Síberíu.

Tolokonnikova var handtekin á síðasta ári eftir að hún og félagar hennar í kvennapönksveitinni Pussy Riot höfðu efnt til mótmæla gegn Vladimír Pútín forseta í kirkju í Moskvu.

Hún fór í hungurverkfall í fangabúðunum í haust til að mótmæla aðstæðum þar, miklu vinnuálagi og hörku fangavarða.

Það var eiginmaður hennar, Petja Versilov, sem skýrði frá því á Twittersíðu sinni að hún væri á leiðinni í fangabúðir númer 50 í Nishní Ingash í héraðinu Krasnojarsk, en þær búðir eru í um þrjú þúsund kílómetra fjarlægð frá Moskvu, þar sem ættingjar hennar og vinir búa.

Versilov segist sannfærður um að með þessu sé verið að refsa henni fyrir mótmælasveltið og koma henni sem lengst frá kastljósi fjölmiðla.  

“Vegna þess hve málið er þekkt geta þeir ekki beitt hana þeim venjulega sálfræðilega og líkamlega þrýstingi, sem notaður er á aðra fanga,” skrifar Versilov, að því er fram kemur á vefsíðu breska dagblaðsins The Guardian. “Þeir hafa því kosið þessa refsingu í staðinn.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×