Fótbolti

Kristinn fær Evrópudeildarleik í Króatíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristinn Jakobsson.
Kristinn Jakobsson. Mynd/Daníel
Kristni Jakobssyni hefur verið úthlutað sínum þriðja leik í riðlakeppni Evrópudeildarinnar á tímabilinu en Kristinn og fjórir aðrir íslenskir dómarar eru á leið til Króatíu þar sem þeir dæma leik í Rijeka á fimmtudagskvöldið.

Kristinn var settur á leik HNK Rijeka frá Króatíu og Vitória frá Portúgal í I riðli Evrópudeildarinnar en leikurinn fer fram á fimmtudagskvöldið og hefst klukkan 18.00 að íslenskum tíma.

Rijeka er í neðsta sæti riðilsins. Króatíska liðið hefur gert jafntefli í báðum heimaleikjum sínum en tapað útileikjunum. Vitória de Guimarães vann fyrri leikinn 4-0 sem er eini sigur portúgalska liðsins í riðlinum til þessa.

Aðstoðardómarar Kristins verða þeir Gunnar Sverrir Gunnarsson og Áskell Þór Gíslason og fjórði dómari verður Sigurður Óli Þorleifsson. Sprotadómarar verða þeir Þóroddur Hjaltalín og Þorvaldur Árnason.

Kristinn hefur dæmt tvo aðra leiki í riðlakeppninni á þessu tímabili. Hann dæmdi leik Lazio og Legia Varsjá í Róm í september og leik Swansea City og Kuban Krasnodar í Wales í október. Hann dæmdi líka tvo leiki í forkeppni Evrópudeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×