Skoðun

Loftslagsbjörgun fyrir 36 milljarða dollara?

Ari Trausti Guðmundsson skrifar
Flestöllum er ljóst að erfitt getur orðið að ná því marki að halda hlýnun loftslagsins innan við 2°C af meðalhita jarðar (undanfarin hækkun er aðeins 0,8°). Fátt hefur gerst sem miðar að verulegum hömlum á losun gróðurhúsagasa og eyðingu skóga. Samkvæmt niðurstöðum sérfræðinga þarf græna raforku, samgöngur með stórlega minni koldíoxíðmengun og orkusparnaðartækni til að ná markinu. Í þýska ritinu Wirtschaftswoche (21.01.13) kemur fram að með því að bæta 36 milljörðum Bandaríkjadollara við þá 96 milljarða Bandaríkjadollara sem ríkistjórnir heims eyða í málaflokkana, næðist í mark í kapphlaupinu um framtíð mannkyns. Þetta eru niðurstöður Green Growth Action Alliance, starfsfélags á vegum Alþjóða efnahagsþingsins (WEF) í Davos. Þar ráða alls konar áhrifamenn og minni spámenn ráðum sínum um þessar mundir. Upphæðin er víst mun lægri en sú sem Bandaríkjastjórn lagði fram vegna tjóns af fellibylnum Sandy í október síðastliðnum. Hvernig má þetta vera?

GGAA-liðið telur 132 milljarða dollara (samtölu talnanna hér á undan) duga til þess að einkafjármagn að upphæð 570 milljarðar dollara fáist til fjárfestingar í umrædd verkefni. Þar með eru komnir þeir rúmu 700 milljarðar dollara sem standa á verðmiða kapphlaupsins. Þarna er m.a. horft til sex milljarðanna í Loftslags-Tæknisjóði Alþjóðabankans. Hver dollari þar dregur aðra átta úr einkageiranum inn í fjárfestingar á þessu sviði, aðallega til grænnar orku, sjálfbærra innviða samfélaga og áætlana um sjálfbæran vöxt.

Sérfræðingarnir benda líka á að ríkisvald getur hvatt fjármagnseigendur til verka með tryggingum, ábyrgðum, hvötum og pólitískum aðgerðum. Loftslagsmálin standa og falla með stjórnmálum og efnahagsstefnum. Það er líka löngu ljóst. Hvernig ætli fundir í Davos 2013 afgreiði þetta álit eigin starfsfélags?




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×