Skoðun

Auður í almannaþágu

Katrín Jakobsdóttir skrifar
Það er skynsamlegra að leggja áherslu á margar fjölbreyttar stoðir í þjóðarbúskapnum en stórar og einsleitar lausnir. Fjölbreytnin ein og sér dugir þó ekki til svo að öllum líði vel. Ekki vegur minna hvernig við skiptum gæðunum okkar á milli í samfélaginu, alveg sama hversu mikið er til skiptanna. Við þurfum ekki annað en að líta í kringum okkur til að sjá að þau samfélög þar sem gæðunum er skipt með réttlátari hætti búa við meiri velsæld. Jafnvel hörðustu hægrimenn heimsins viðurkenna þá staðreynd að aukinn jöfnuður eykur velsæld í samfélögum.

Grunnstefna okkar Vinstri grænna er að auka jöfnuð og draga úr misskiptingu í samfélaginu. Á hana hefur flokkurinn lagt höfuðáherslu í ríkisstjórnarsamstarfi sínu við Samfylkinguna með góðum árangri. Við höfum komið á réttlátara skattkerfi sem hjálpar öllum að leggja sitt af mörkum til samfélagsins eftir bestu getu. Með auknum barnabótum höfum við bætt lífskjör tekjulágra barnafjölskylda og með nýjum áherslum í Lánasjóði íslenskra námsmanna höfum við aukið jafnrétti til náms svo fátt eitt sé nefnt. Við höfum beitt okkur fyrir að það fé sem rennur úr sameiginlegum sjóðum okkar til velferðar- og menntamála sé nýtt í almannaþágu en ekki til að greiða einstaklingum arð. Við höfum séð til þess að samfélagið allt njóti betur ávaxtanna af sameiginlegum auðlindum okkar, m.a. með lögum um veiðigjöld, nýrri stefnu hjá Landsvirkjun og áherslu á opinbert eignarhald á orkufyrirtækjum. Með þessum aðgerðum höfum Vinstri græn stuðlað að auknum jöfnuði og tryggt að auður samfélagsins skili sér í auknum mæli til almennings en ekki útvaldra einstaklinga.

Ríkisstjórnarsamstarf tveggja eða fleiri flokka byggir á málamiðlunum. Við vinstri græn gerðum málamiðlanir í ýmsum málum við Samfylkinguna. Við gerðum hins vegar engar málamiðlanir þegar kom að því grunnstefi vinstristefnunnar að auka velsæld fyrir alla með auknum jöfnuði. Við munum halda áfram að berjast fyrir því að auður samfélagins verði nýttur í almannaþágu.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×