Skoðun

Má bjóða þér Bjarta framtíð?

Heiða Kristín Helgadóttir skrifar
Ég fagnaði átta ára afmælinu mínu, þann 20. apríl árið 1991, á Hard Rock Café í Kringlunni. En mér fannst ég ekki eiga þennan dag alveg ein – sem ég var ekki sátt við.

Það var mikil spenna í loftinu og fullorðna fólkið í kringum mig talaði mikið um einhvern Davíð, einhvern Jón Baldvin og einhverja aðra kalla sem skiptu mig ekki miklu máli. Ég var meira upptekin af því hvort ég fengi bananasplitt og afmælissöng frá þjónustustúlkunum í furðulega stuttum hvítu kjólunum eða ekki. Ég fékk minn afmælissöng og bananasplitt – það fylgdi meira að segja stjörnuljós með. En hitt var annað mál; þessi óróleiki í fullorðna fólkinu gerði mig forvitna. Ég hef ekki losnað við þessa forvitni síðan. Mér finnst lýðræðisleg stjórnmál óendanlega heillandi.

Furðulegt afl

Mér finnst mikilvægt að við skulum eiga þess kost að koma saman í friðsemd og gera tilraun til að leysa vandamál sem upp koma í samfélaginu. En þannig er raunveruleiki stjórnmálanna ekki – stór hluti stjórnmála er gegnumsýrður af óöryggi, vantrausti, klækjum og óheiðarleika. Hvort sem það er milli flokka eða milli kjósenda og kjörinna fulltrúa. Sem er skrítið, því lýðræðið býður upp á að stjórnmál séu vettvangur fyrir vangaveltur, virðingu og heilbrigð og uppbyggileg samskipti.

Ég byggi þetta ekki á einhverri tilfinningu út í loftið, heldur á menntun minni í stjórnmálafræði og ekki síst reynslu minni við að hafa starfað í borgarpólitík undanfarin þrjú ár. Þar er mikið af fólki sem vill ekkert frekar en að þjóna kjósendum og gera vel. En einhverra hluta vegna afvegaleiðist þessi vilji í sumum málum, alls ekki öllum, og eitthvert furðulegt afl tekur við sem síðan býr til rugling, óöryggi og ótta. Ég hef sterkan grun um að orsökin liggi hjá flokkunum sjálfum. Það er eitthvað í uppbyggingu þeirra og menningu sem gerir það að verkum að það verður dyggð að ná að klekkja á þeim sem eru ekki sömu skoðunar og þú. Þú nýtur velgengni ef þú ert vægðarlaus, klókur, ósveigjanlegur og hlustar bara á þá sem eru með þér í liði; nærð þínu fram með frekju frekar en rökum.

Heilbrigð samskipti

Ég hef tekið þátt í því að búa til tvo stjórnmálaflokka. Það er eitt af því skemmtilegasta sem ég hef gert og það er mjög mikilvægt að það sé skemmtilegt. Því í gleðinni og ljósinu verða til mun betri lausnir en í myrkrinu og reiðinni. En það sem er líka mikilvægt er að báðir þessir flokkar leggja áherslu á heilbrigð samskipti. Ég veit ekki hver fann upp á því að það væri mikil dyggð að búa til stjórnmálaafl sem byggði á því að ýta undir óheilbrigð samskipti, óheiðarleika og óöryggi. Kannski var það þessi Davíð eða þessi Jón Baldvin eða þessi Finnur eða þessi Halldór? Ég veit það ekki og það skiptir mig ekki máli.

Það skiptir mig miklu meira máli að reyna að gera mitt vel. Þess vegna vil ég bara þakka þeim kærlega fyrir allt sem þeir hafa gert fyrir þetta samfélag. Hvort sem það hefur reynst gáfulegt eða ekki. Eflaust fannst þeim það frábært á sínum tíma. Eflaust fannst vinum þeirra það líka. En nú skulum við halda áfram og hætta að velta okkur upp úr því hvort það hefði átt að vera svona eða hinsegin. Lærdómurinn er ljóslifandi fyrir framan okkur og í skýrslum eins og rannsóknarskýrslu Alþingis og Orkuveituskýrslunni. Tökum sönsum og höldum áfram.

Það er margt enn óleyst – erfiðar ákvarðanir sem þarf að taka og margt í húfi; stöðugt efnahagslíf, fjölbreyttara atvinnulíf, hagkvæmari heilbrigðisþjónusta, öflugri heilsugæsla, uppgjör banka, samningar við vogunarsjóði, staða okkar í alþjóðasamfélaginu, nýting auðlinda, fjölbreyttara menntakerfi – svo fátt eitt sé nefnt.

Allt stefnir þetta að sama markmiði; heilbrigðara samfélagi. Við erum rúmlega 300 þúsund manneskjur sem búum á einni fallegustu eyju í heimi – erum pínu skrítin og dálítið frábær. Ekkert meira en aðrir, en mögulega einhvers staðar fyrir ofan meðallag. Höldum því áfram að reyna að ná árangri, en vöndum okkur og lærum af mistökunum – þá blasir ekkert annað við okkur en björt framtíð!




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×