Skoðun

Vinstri – græn setja framtíð skólastarfs á oddinn

Katrín Jakobsdóttir skrifar
Eitt af mikilvægustu málunum sem kosið verður um nú í vor er framtíð skólastarfs á Íslandi. Vinstri græn setja það mál á oddinn og hafa kynnt áætlun um hvernig aukið fé verður tryggt til uppbyggingar skólakerfisins á næsta kjörtímabili.

Framhaldsskólarnir hafa búið við erfið kjör seinustu ár. Starfsmenn þeirra hafa líka sýnt mikinn skilning og langlundargeð því að fjármagn hefur ekki fylgt nýjum framhaldsskólalögum sem voru samþykkt áður en núverandi ríkisstjórn tók við. Á sama tíma hafa framhaldsskólarnir opnað dyr sínar fyrir fólki sem ákveðið hefur að sækja sér menntun á krepputímum, t.d. vegna atvinnumissis.

Á næstu árum verður hins vegar lag að bæta úr þessu og efla framhaldsskólana. Í skólunum vinnur öflugt fagfólk sem á skilið að njóta betri kjara og það er okkar ábyrgð að lyfta kennarastéttinni ef okkur er annt um menntun íslenskra barna og ungmenna.

Íslenskir háskólar hafa ekki heldur farið varhluta af aðhaldi í ríkisrekstri eins og kom meðal annars fram í fréttum á dögunum um að sárafá akademísk störf hafi bæst við hjá Háskóla Íslands þó að fjölgun nemenda nemi þúsundum. Fyrir hrun var íslenska háskólakerfið vanfjármagnað í alþjóðlegum samanburði þannig að það var ekki búið undir slíkar efnahagsþrengingar en um leið má segja að íslenskir háskólamenn hafi staðið vaktina, opnað dyr sínar og haldið áfram að skila miklum árangri í kennslu og rannsóknum.

Forgangsraðað

Á undanförnum árum höfum við forgangsraðað þannig í þágu menntunar að sá óumflýjanlegi niðurskurður sem ráðast þurfti í hefur verið hlutfallslega minni en í öðrum málaflokkum. Þá hafa óreglulegar tekjur, til dæmis af veiðigjaldi á útgerðarfyrirtæki, verið nýttar til að efla rannsóknir og nýsköpun. Þetta hefur verið varnarbarátta en nú viljum við blása til sóknar.

Nú þegar sér fyrir endann á fjárlagahallanum er svigrúm til sóknar. Vinstri – græn hafa lagt fram raunhæfa og ábyrga ríkisfjármálaáætlun til næstu fjögurra ára sem byggist á því að viðhalda stöðugleika, auknum arði þjóðarinnar af auðlindum, engum skattahækkunum og spá Hagstofunnar um rúmlega tveggja prósenta hagvöxt. Þessi stefna skapar 50 til 60 milljarða svigrúm á næstu árum og þá skiptir máli að forgangsraða. Við viljum nýta þetta svigrúm til að efla velferð, heilbrigðisþjónustu og menntun.

Kjósendur geta nú valið um forgangsröðun ólíkra flokka. Vinstri – græn setja framtíð skólastarfs í landinu og eflingu velferðarkerfisins á oddinn. Okkur finnst kominn tími til að menntakerfið og velferðarkerfið njóti árangursins af erfiði undanfarinna ára.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×