Skoðun

Sátt um að halda áfram

Hanna Birna Kristjánsdóttir skrifar
Nauðsyn þess að tala fyrir von, breytingum og betri framtíð hefur sjaldan verið meiri en nú. Helmingur heimilanna í landinu hefur áhyggjur af því að ná ekki endum saman og fjölskyldur hafa áhyggjur af framtíðinni. Krafan til okkar sem í stjórnmálum störfum er skýr: Gefið þjóðinni tækifæri og treystið henni til að byggja upp og vinna saman að aukinni hagsæld fyrir alla.

Þetta kemur skýrt fram þegar skoðuð er skýrsla McKinsey & Company sem gefin var út um íslenska hagkerfið og leiðir til að auka vöxt og velferð. Full af hvatningu, von og lausnum er skýrslan einnig góð áminning um mikilvægi þess að hér náist sátt um það sem mestu skiptir: að halda áfram.

Verkefnið fram undan er skýrt. Við þurfum sátt um aukinn vöxt, meiri framleiðni og fjárfestingu. Það gerum við með því að búa vel að grunnatvinnuvegunum en stuðla um leið að fjölbreyttu atvinnulífi þar sem hlutverk stjórnvalda er að skapa umhverfi sem fóstrar slík tækifæri með hófsömum álögum, einföldu regluverki og öflugri menntun.

Styrkleikarnir augljósir

Styrkleikar okkar sem þjóðar eru augljósir og veikleikarnir klárlega allir þess eðlis að við getum líka unnið með þá. Framleiðni og arðsemi er t.d ekki eins mikil og hún gæti verið, þrátt fyrir að við vinnum flestar vinnustundir þeirra þjóða sem við helst berum okkur saman við. Það skortir því ekki á vilja okkar til vinnu en við getum greinilega sett okkur skýrari markmið og gert meiri kröfur um árangur. Þetta virðist eiga jafnt við um atvinnulífið og hið opinbera.

Grundvallaratriðið

Þjóð sem er vön að leggja mikið á sig, takast á við erfiðleika og leysa það sem fyrir hana er lagt, mun ekki víkja sér undan því að bæta það sem bæta þarf. Ef stjórnvöld hafa trú á fólkinu sjálfu, treysta fyrirtækjum og frumkvöðlum og leggja sig fram um traust samstarf við þá sem að nauðsynlegri uppbyggingu koma, verður niðurstaðan farsæl. Grundvallaratriðið er að við komumst á betri stað og komandi kynslóðir njóti þess að við tökum nú höndum saman, náum að yfirstíga vandann og séum sammála um nauðsyn þess að halda áfram.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×