Skoðun

Klárum samningana!

Össur Skarphéðinsson skrifar
Mikill meirihluti af þeim sem tóku afstöðu í könnun Félagsvísindastofnunar vill ljúka samningum um aðild að Evrópusambandinu. Samningaviðræðurnar eru komnar langt áleiðis og glapræði væri að slíta þeim. Það gæti frestað möguleikum Íslendinga á að taka upp evru um 30-40 ár. Nú þegar er búið að opna til samninga 4/5 af þeim 33 köflum sem um þarf að semja. Samningum er lokið um þriðjung.

Mestu skiptir að okkur hefur tekist að skapa góðan skilning á sérstöðu Íslands, ekki síst varðandi sjávarútveg, landbúnað og aðra mikilvæga þætti. Það kom t.d. fram á nýlegum fundi mínum með Stefan Fule, stækkunarstjóra sambandsins, sem lýsti fullum skilningi á mikilvægri kröfu Íslendinga um bann við innflutningi á lifandi dýrum. Framkvæmdastjóri orkumála, Oettinger, lýsti sömuleiðis yfir í tilkynningu eftir okkar fund að Íslendingar myndu halda bæði eignarhaldi og fullu forræði yfir orkulindum sínum. Fyrir liggur að reglur ESB tryggja að Íslendingar halda rétti sínum sem þeir hafa gagnvart fiskistofnum í hafi.

Evrópuleiðin gerir Íslendingum kleift, ef þeir vilja, að skipta út krónunni, sem er þyngsti skatturinn á þjóðinni, og taka upp evru. Vextir myndu lækka, verðbólga myndi minnka og verðtryggingin hyrfi. Þarna liggur tækifæri Íslands til að öðlast efnahagslegan stöðugleika. Reynsla smárra þjóða sýnir líka að aðild stóreykur erlendar fjárfestingar, sem skapa störf og fjölbreytni í atvinnulífinu.

Þeir sem vilja tryggja framhald viðræðna og halda möguleikum Íslands opnum gagnvart Evrópusambandinu stuðla best að því með því að greiða Samfylkingunni atkvæði sitt. Við erum sá flokkur sem bar málið fram á Alþingi og höfum sýnt mesta staðfestu og ábyrgð í Evrópuferlinu.

Þeir sem vilja fá að kjósa um samning – þeir kjósa líka Samfylkinguna.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×