Íslenski boltinn

Gætið orðið einstakt Evrópukvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David James
David James Mynd/Daníel
 Þrjú íslensk félagslið verða í eldlínunni í Evrópudeild UEFA í kvöld og öll eiga þau heimaleik. KR, Breiðablik og ÍBV mæta öll liðum þar sem sigur er nauðsynlegur ætli liðin sér að komast áfram í aðra umferð.

Takist liðunum að vinna þessa þrjá leiki í kvöld gera þau 4. júlí að einstökum degi í sögu íslenskra félagsliða í Evrópukeppnum. Tveir sigrar myndu einnig þýða að tæplega 23 ára bið væri á enda eftir tveimur heimasigrum í Evrópukeppni á sama degi, eða síðan KA og Fram fögnuðu bæði sigrum 19. september 1990.

Breiðablik mætir FC Santa Coloma frá Andorra, sem endaði í öðru sæti í sinni deild á síðasta tímabili. Santa Coloma er sjöunda árið í röð í Evrópukeppni en hefur ekki unnið Evrópuleik síðan 2007 og er búið að tapa öllum sex útileikjum sínum á þessum tíma með markatölunni 5-19.

KR mætir Glentoran FC frá Norður-Írlandi, sem endaði í 4. sæti í sinni deild á síðasta tímabili en komst í Evrópudeildina þegar liðið tryggði sér bikarmeistaratitilinn. Bæði liðin unnu því bikarinn á síðasta tímabili.

ÍBV mætir HB Tórshavn frá Færeyjum, sem varð í 3. sæti í færeysku deildinni á síðustu leiktíð. HB er eins og er með sjö stiga forskot í deildinni heima fyrir. Með liðinu leika meðal annars Símun Samuelsen (Keflavík), Fróði Benjaminsen (Fram) og Christian Mouritsen (Valur), sem allir hafa spilað í íslensku úrvalsdeildinni. Eyjamenn hafa unnið heimaleiki sína í Evrópukeppninni undanfarin tvö ár en féllu í bæði skiptin naumlega úr keppni.

Leikir KR (KR-völlur) og Breiðabliks (Kópavogsvöllur) hefjast klukkan 19.15 en leikur ÍBV (Hásteinsvöllur) verður ekki flautaður á fyrr en 19.30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×