Skoðun

Hversdagsþörf hælisleitenda

Toshiki Toma skrifar
Ég fer reglulega í heimsókn til hælisleitenda, sem dvelja á Fit-hosteli í Reykjanesbæ, sem sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum og einnig kem ég í heimsókn sem prestur innflytjenda ef fólk óskar eftir því.

Ég hef sinnt þessum heimsóknum í átta ár. Á þessum árum hef ég hitt marga einstaklinga undir þaki Fit-hostels en það er eitt sem næstum allir sögðu og segja enn. „Hér hef ég ekkert að gera. Ég eyði dögum mínum í tilgangsleysi. Af hverju má ég ekki vinna? Mig langar að verða hluti af mannlegu samfélagi.“ Ég á auðvelt með að setja mig í spor þeirra sem svona tala. Málefni hælisleitenda innihalda tvær hliðar. Önnur snýr að meðferð hælisumsóknarinnar sjálfrar en hin að lífi hælisleitandans á meðan á biðinni stendur.

Þegar kemur að seinni hliðinni, kveða útlendingalögin á um að: „Í reglugerð skal mælt fyrir um réttindi hælisleitenda, þ.m.t.: … b) aðgang að menntun og starfsþjálfun, …“ (47.gr.b). Í raun er ekkert um þessi atriði í reglugerðum og hefur lögunum því ekki verið fylgt hvað þetta varðar.

Kvarta ekki bara til að kvarta

Ég vona því að aðstæðurnar lagist með nýrri ríkisstjórn, sem þarf fyrst og fremst að hlusta á hælisleitendur sjálfa til að geta bætt stöðu þeirra. Rauði krossinn eða Reykjanesbær koma að sjálfsögðu einnig að málinu og skila áliti um það, en það þarf einnig að heyra viðhorf hælisleitanda. Mér skilst að velferðarráðuneytið sé æðsta yfirvald sem hefur með líf hælisleitenda á biðtímabilinu að gera. Hefur fulltrúi velferðarráðuneytisins hlustað á hælisleitendur til að skilja hversdagsþörf þeirra og líðan?

Flestir hælisleitendur kvarta ekki bara til þess að kvarta. Það er ástæða fyrir því að kvarta eða mótmæla. Og að mínu mati eru þeir alls ekki vitlaust fólk og það er jú hægt að tala saman í ró. Þegar misskilningur gerir vart við sig er hægt að leiðrétta hann með alvöru samtali.

Ég vil innilega hvetja velferðarráðherra til að koma því í kring að fulltrúi ráðuneytisins heimsæki hælisleitendur í Fit-hosteli og á öðrum stöðum og hlusti á þörf þeirra og óskir í ró og næði.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×