Fótbolti

FH getur á góðum degi slegið út Austria Vín

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hefur starfað lengi í Austurríki og Þýskalandi, fyrst sem leikmaður og nú sem þjálfari. Hér er hann sem leikmaður Kärnten árið 2003.
Hefur starfað lengi í Austurríki og Þýskalandi, fyrst sem leikmaður og nú sem þjálfari. Hér er hann sem leikmaður Kärnten árið 2003.
Helgi Kolviðsson þekkir vel til í austurríska fótboltanum en hann er nú þjálfari B-deildarliðsins Austria Lustenau sem var nálægt því að vinna sér sæti í úrvalsdeildinni síðastliðið vor.

FH mætir meisturunum þar í landi, Austria Vín, í þriðju umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu en eins og kemur fram hér fyrir ofan er gríðarlega mikið í húfi fyrir Hafnfirðinga.

„Austria Vín spilar samkvæmt 4-3-3 leikkerfinu eins og FH. Þetta er sókndjarft lið með leikmenn sem eru góðir á boltann og með mikla tæknilega getu. Liðið spilar þar að auki heimaleiki sína á besta vellinum í Austurríki,“ segir Helgi en vill þó alls ekki afskrifa möguleika FH-inga í rimmunni.

„Ef þeir ná að spila þéttan varnarleik og treysta á skyndisóknir og föst leikatriði er vel hægt að ná góðum úrslitum hér úti í fyrri leiknum og halda öllu opnu fyrir þann síðari í Kaplakrika,“ segir Helgi sem sá FH spila leik í forkeppni Evrópudeildar UEFA í Liechtenstein í fyrra. „Ég tel að FH geti vel haldið í við Austria Vín á góðum degi,“ bætir hann við.

Meðal þeirra leikmanna liðsins sem helst hafa vakið athygli er sóknarmaðurinn Philipp Hosiner sem var síðast í gær orðaður við Everton og Crystal Palace í ensku pressunni.

„Það er ekkert nýtt að lið eins og Austria missi sína bestu leikmenn en það er algengt að þeir fari yfir í þýsku úrvalsdeildina. Hosiner hefur þar að auki unnið sér sæti í austurríska landsliðinu og er byrjaður að skora fyrir það,“ segir Helgi og bætir við að Austria sé vel mannað á öllum vígstöðum.

„Þetta er lið sem á vissulega mörg vopn sem FH-ingum ber að varast. Austria Vín er þar að auki eitt stærsta félag landsins með mjög fagmannlega umgjörð og ríka sigurhefð. En þó svo að liðið þyki sigurstranglegra á pappírnum er allt hægt. Íslensk lið eiga alltaf möguleika á heimavelli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×