„Við getum umgengist fólk, hópa og einstaklinga, þótt við séum ekki sammála þeim um allt. Þá erum við frekar að vinna með það sem við eigum sameiginlegt en það sem sundrar,“ segir Agnes í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.
„Kristið fólk á Íslandi tilheyrir mörgum kirkjudeildum og er ekki sammála um allt en við getum sameinast í bæn fyrir landi og þjóð. Það er markmiðið með Hátíð vonar. Tengsl við þau sem eru ólík okkur skerpa sjálfsmyndina. Þjóðkirkjan hefur tekið skýra afstöðu með samkynhneigðum og hjónaböndum þeirra og stendur við hana.“

Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Samtakanna "78, er afar ósátt við að Franklin Graham skuli fenginn á þessa hátíð.
„Það eru mér mikil vonbrigði að á „Hátíð vonar“ skuli eiga að flytja inn atvinnuhommahatara og mér finnst það ömurleg skilaboð að gefa íslensku samfélagi einmitt þegar Hinsegin dagar, og sú mannréttindahátíð sem þeir eru, standa yfir.“
Hún bendir á að stefna stjórnvalda sé að vernda réttindi hinsegin fólks og um það sé allur almenningur á Íslandi sammála. Ummæli Grahams ýti hins vegar undir að hinsegin fólk sé jaðarsett, sæti aðkasti og í ömurlegustu tilfellunum ofbeldi víða um heim.

„Í fyrsta lagi stendur Þjóðkirkjan ekki formlega að þessari hátíð. Þess vegna finnst mér fáránlegt að þessi fréttatilkynning skuli koma á vef Þjóðkirkjunnar og ég hvet yfirstjórn kirkjunnar til að draga hana til baka,“ segir Sigríður.
„Ég er líka verulega ósátt við það að tilkynningin skuli þar að auki koma fram á miðjum Hinsegin dögum, sem mér finnst særandi,“ bætir hún við og tekur fram að Guðríðarkirkja taki ekki þátt í Hátíð vonar á nokkurn hátt.
En hvað finnst henni um að sóknir á vegum Þjóðkirkjunnar skuli taka þátt í hátíðinni?
„Mér finnst ekki eðlilegt að Þjóðkirkjan, sem hefur heimilað vígslu samkynhneigðs fólks og verið að byggja upp samtal og samband við það, standi að samstarfi við Franklin Graham,“ segir Sigríður Guðmarsdóttir.